fbpx
Þriðjudagur 02.september 2025
Fréttir

Allt á suðupunkti eftir Kastljósið í gær: „Ég er gjörsamlega orðlaus“ – „Þetta er bara byrjunin“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. september 2025 08:00

Skjáskot úr Kastljósi gærkvöldsins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að margir hafi skoðun á Kastljósþætti gærkvöldsins þar sem þingmaðurinn Snorri Másson ræddi málefni hinsegin fólks við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastýri Samtakanna ’78.

Eins og DV greindi frá í gærkvöldi vísaði Snorri allri ábyrgð á hatursorðræðu og ofbeldi í garð þessa hóps frá sér, en hann hefur meðal annars hafnað því að bakslag hafi orðið í réttindum hinsegin fólks. Þá hefur hann hafnað því sömuleiðis að hægt sé að fæðast í röngum líkama.

Snorri sagði nýlega í viðtali við hlaðvarpið Ein pæling að hann væri ekki sáttur við hugtakið hinsegin fólk og vísaði því á bug að bakslag hefði orðið í réttindum þessa hóps. Hann sagði einnig að það væru bara til tvö kyn en fólk gæti ef það vildi trúað öðru.

Hér má lesa samantekt á orðum Snorra í Kastljósi gærkvöldsins.

„Ógeðfelld framkoma“

Ef marka má umræðuna á samfélagsmiðlum eru margir óhressir með Snorra og þá ber á gagnrýni á því hvernig þættinum var stjórnað.

„Ég er gjörsamlega orðlaus yfir ógnandi og ógeðfelldri framkomu þingmanns miðflokksins gagnvart viðmælanda sínum í Kastljósi kvöldsins. Yfirgangurinn, frekjan og fyrirlitningin á sér greinilega engin takmörk hjá þessum litla kalli sem er að reyna að marka sér einhverja stöðu með því að ráðast að tilvistarrétti jaðarsettra einstaklinga og hópa,“ segir meðal annars í færslu frá Semu Erlu Serdaroglu á Facebook og tóku margir undir með henni.

Viðar Eggertsson, leikari og leikstjóri, var einnig óhress með Snorra. „Hvað var ég að horfa á?! Ég á ekki orð. Miðaldir mættar í Kastljósið. Snorri er haldinn þeirri firru að ranghugmyndir og fordómar sé helgur réttur og eigi að kallast “skoðun”. Orðræða hans er í besta lagi heimsk og í versta lagi grimmilega hættuleg,” sagði Viðar og tóku margir undir með honum.

„Ég um mig frá mér til mín og aftur um mig og mitt,“ sagði til dæmis Heimir Már Pétursson, fyrrverandi fréttamaður og framkvæmdastjóri Flokks fólksins, við færslu Viðars. „Okkur fer aftur,“ sagði þingmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson í athugasemd sinni og bætti svo við: „Stöndum saman.“

Bubbi Morthens, lagði einnig orð í belg við færslu Viðars, og sagði: „Hann þarf að taka alvarlega. Hann mun klifra upp stigann. Það þarf að mæta honum af festu og tala beint til þeirra sem hann höfðar til, þetta er bara byrjunin.“ Bubbi sagði svo þetta í athugasemd við færslu Illuga Jökulssonar: „Hræddur er ég um að við eigum eftir að sjá hann klifra upp stigann. Hann gæti verið byrjunin á hruninu.“

Lýsandi fyrir bakslagið

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur, rithöfundur og trans aðgerðasinni, skrifaði síðan langa færslu á Facebook sem vakið hefur mikla athygli. Þar sagði hún meðal annars að það væri lýsandi fyrir bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks að kona, sem er sérfræðingur í málaflokknum, fái varla að klára setningar án þess að gripið sé fram í fyrir henni af manni sem hefur enga sérfræðiþekkingu eða reynslu á þessu sviði.

„Mér leið svona svolítið eins og ég væri að hlusta á einhvern sem hefur aldrei stigið fæti í sveit vera að reyna að segja manneskju sem er fædd og uppalin á kúabúi hvernig hún ætti að mjólka beljur.

Trekk í trekk reynir Þorbjörg að setja hlutina í stærra samhengi, til þess að einmitt benda á hvernig að bakslagið hérlendis er hluti af alþjóðlegri þróun, án þess að Snorri hlusti og taki mið af þessu samhengi. Hann þvert á móti lætur sem hún viti ekkert hvað hún sé að tala um, þrátt fyrir að starf hennar undanfarin ár hafi bókstaflega snúist um það að rannsaka og greina bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks,“ sagði Ugla meðal annars.

„Vandræðaleg og gamaldags“ framganga

Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingar og fyrrverandi borgarstjóri, skrifaði einnig langa færslu sem vakti mikla athygli.

Rifjaði hann upp að á hans yngri árum hafi frumkvöðlar og þeir fyrstu úr röðum homma og lesbía sem stigu fram opinberlega búa við að vera ítrekað beðin að koma í fjölmiðla til að ræða málin við einhverja sem stillt var upp a móti þeim – og beinlínis afneituðu samkynhneigð eða að hommar og lesbíur væru til.

„Það var vinsælt að fá talsmenn ákveðinna trúfélaga sem oft voru mælskir og héldu orðinu meira eða minna allan tímann og predikuðu um hvað fólki ætti að finnast um sjálft sig eða ekki finnast og hvað væri augljóslega rétt og hvað rangt,“ segir Dagur meðal annars.

„Við eigum baráttu þessara homma og lesbía og hinsegin fólks og langlundargeði þeirra, úthaldi, baráttugleði og hreinlega gleði að þakka að við búum í opnu og frjálslyndu samfélagi sem oftar en ekki reynir að þræða rétta slóð. Ein jákvæðasta breytingin í samfélaginu á undanförnum áratugum er sú ótrúlega viðhorfsbreyting og umbætur hafa orðið í málefnum hinsegin fólks. Það hefur gert samfélagið betra að lifa í fyrir okkur öll – því það er meira svigrúm til að vera maður sjálfur,” segir hann og heldur áfram:

„En það hefur því miður orðið bakslag í þessum efnum í heiminum – og líka hér. Þeir sem efuðust um það geta horft á Kastljós kvöldsins þar sem Þorbjörg Þorvaldsdóttir talskona Samtakanna 78 geislaði af mennsku og gæsku – en komst alltof lítið að fyrir Snorra Mássyni þingmanni sem valtaði yfir hana og þáttastjórnandann og okkur áhorfendur og bauð upp á endursýningu úr fortíðinni – og nokkra slagara úr bandarískum hlaðvörpum af hægri jaðrinum sem afneita fjölbreytileika lífsins og mannlífsins.”

Dagur sagði að framganga Snorra væri fyrst og fremst „vandræðaleg“ og „gamaldags“.

„Íslensku samfélagi treysti ég vel til að sjá í gegnum þetta þunnildi og vanhugsaða eða illgjarna þras. Við getum lært margt af öðrum löndum en þurfum alls ekki að flytja inn ósiðina úr lélegasta og dapurlegasta hluta stjórnmálaumræðu nútímans.“

Hér má sjá Kastljósþátt gærkvöldsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs

Ákærður fyrir að brjóta gegn barni frá tveggja til fimm ára aldurs
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“

Faðir Elfars stígur fram: „Sveitarstjórinn sem fyrirskipaði aftökuna situr áfram eins og hann hafi ekki gert neitt rangt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ástríðuverkefni Ingileifar í loftið – „Tileinkuð Ólöfu Töru heitinni, sem segir sína sögu“

Ástríðuverkefni Ingileifar í loftið – „Tileinkuð Ólöfu Töru heitinni, sem segir sína sögu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Play segir upp 20 starfs­mönn­um

Play segir upp 20 starfs­mönn­um