fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
Fréttir

Umdeild áform, um endurbyggingu verkstæðis sem brann fyrir áratug, í uppnámi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 30. ágúst 2025 10:27

Grettisgata 87 hefur verið rústir einar í 9 ár. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um að samþykkja áform um endurbyggingu á réttingaverkstæði við Grettisgötu 87 í Reykjavík. Stórbruni varð í húsinu, sem er stálgrindarhús, árið 2016 og hafa brunarústirnar staðið á lóðinni síðan þá. Rætt var um að byggja íbúðir á lóðinni en ekkert varð af því og til stóð að endurbyggja húsið til að reka í því réttingaverkstæði, bílakjallara og heildverslun en þau áform virðast nú vera í uppnámi.

Vísir fjallaði um áformin fyrr á þessu ári og rifjaði þá upp að árið 2023 hafi verið greint frá því að rústirnar yrðu rifnar og til stæði að byggja íbúðir á lóðinni en það virðist hafa breyst. Fram kom í fréttum Vísis að áformin væru umdeild meðal lóðarhafa annarra lóða á svæðinu.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að kærandinn hafi verið Embla fasteignafélag ehf., eigandi fasteigna að Rauðarárstíg 12 og 14. Krafðist félagið þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi, eða henni breytt þannig að áskilið væri samþykki allra aðila, aukins meirihluta eða meirihluta í Lóðarfélaginu Laugavegi 116–118 og Grettisgötu 87–89.

Sameign

Áformin, sem byggingarfulltrúi samþykkti í vor gengu út á að endurbyggja stálgrindarhúsið klætt steinullareiningum eftir bruna á kjallara sem fyrir var og innrétta réttingaverkstæði og heild­verslun á 1. hæð og bílageymslu. Ekki voru gerðar skipulagslegar athugasemdir, af hálfu skipulagsfulltrúa, við erindið og samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina.

Í kæru sinni vísaði Embla meðal annars til þess að samkvæmt samningi aðila að Lóðarfélaginu væri hluti bílakjallarans að Grettisgötu 87 í sameign allra aðila og því hafi borið að leita samþykkis allra meðeigenda fyrir byggingaráformunum.

Benti Embla sömuleiðis á að í upphaflegri umsókn um byggingarleyfi hefði ekkert verið minnst á bílakjallara og ekkert hafi komið fram um það í umsögn skipulagsfulltrúa en við lokaafgreiðslu byggingarfulltrúa hafi það skyndilega breyst. Gerði félagið einnig athugasemd við umsögn skipulagsfulltrúa og taldi hana ekki nógu skýra.

Ekki samkvæmt deiliskipulagi

Embla vísaði einnig til þess í sinni kæru að samkvæmt deiliskipulagi á svæðinu ætti að reisa á lóðinni þriggja hæða íbúðarhúsnæði og bílakjallara sem tengjast megi bílakjallara á suðausturhorni, Grettisgötu 89, í stað hinnar víkjandi verksmiðjubyggingar. Notkun á lóðinni, af því tagi sem áformin snerust um, væri heldur ekki heimil samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Þar að auki væri byggingarreitur á Grettisgötu 89 sameign allra í Lóðarfélaginu, enda tæki slík bygging að stærstum hluta til lóðarinnar sem engin fasteign stæði á. Hámarksbyggingarmagn slíkrar byggingar væri 3.900 fermetrar og því ljóst að um mikla og sameiginlega hagsmuni lóðarhafa væri að ræða.

Í andsvörum Reykjavíkurborgar kom fram að byggingarfulltrúi hefði samþykkt byggingaráformin en ekki gefið út byggingarleyfi. Samkvæmt lögum um mannvirki þýddi það ekki að heimilt væri að hefja framkvæmdir. Skila þyrfti inn frekari gögnum áður en leyfi væri gefið út og þar af leiðandi hafi ekki verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Borgin taldi samþykkt byggingaráformana í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu enda væri þar hvergi kveðið á um skyldu eiganda Grettisgötu 87 til að byggja nýtt hús heldur eingöngu heimild til að byggja með öðrum hætti. Borgin andmælti því einnig að áformin stæðust ekki lög um fjöleignarhús og vísaði til þess að umsókn um leyfi til framkvæmda væri í samræmi við teikningar samþykktar á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur frá 1966 er varði stærð og lögun mann­virkisins. Varakröfu Emblu um eignahlutföll í Lóðarfélaginu ætti loks að vísa til Kærunefndar húsamála en byggingarfulltrúi hefði ekkert um það mál að segja.

Í sömu mynd

Umsækjandi um byggingarleyfið fékk tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Viðkomandi benti meðal annars á að samkvæmt umsókninni ætti að nota nota undirstöður og kjallaraveggi sem væru til staðar. Umsóknin hafi því alltaf falið í sér enduruppbyggingu hússins í sömu mynd og það hafi verið fyrir brunann, þar með talið með kjallara hússins í óbreyttri mynd.

Umsækjandinn vildi meina að það væri fyllilega í samræmi við aðalskipulag borgarinnar að reka heildverslun og réttingaverkstæði á lóðinni. Deiliskipulagið legði heldur ekki neinar skyldur á hans herðar um að byggja á henni íbúðarhúsnæði. Það væri aðeins heimilt.

Vildi umsækjandinn meina að hefði hann áhuga á að byggja upp með þeim hætti sem skipulagið gerði ráð fyrir þyrfti hann líklega samþykki allra lóðarhafa fyrir breyttri uppbyggingu. Auk þess þyrfti hann mögulega að kaupa aukinn byggingarrétt, sem væri sameiginlegur, og eins þyrfti að hann að ráðast í byggingu bílastæða neðanjarðar sem telja yrði ótrúlegt að nokkur lóðarhafa myndi vilja ráðast í að svo stöddu, vegna kostnaðar. Væri honum því algjörlega ómögulegt að byggja upp með öðrum hætti en að endurbyggja núverandi hús, sem væri heimilt án samþykkis annarra lóðarhafa. Ekki væri gert ráð fyrir neinni breytingu á umræddum bílastæðum í kjallara og þyrfti því ekkert samþykki frá eigendum annarra eigna á svæðinu eða öðrum lóðarhöfum.

Ekki í sömu mynd

Embla andmælti því að áformin snerust um að endurbyggja húsið í sömu mynd og það var áður. Rekstur réttingaverkstæðis á lóðinni félli ekki að aðalskipulaginu enda þyrfti samkvæmt því þjónustustarfsemi á svæðinu að vera hreinleg og falla að íbúðabyggð. Samkvæmt lögum um fjöleignarhúsa yrði að fá samþykki annarra lóðarhafa í Lóðarfélaginu enda væri kjallari hússins í sameign og ástand hans mjög bágborið. Það gengi heldur ekki að vísa í teikningar frá 1966 enda væri nú félagið komið til sögunnar og byggingarleyfi gæti ekki haft svona langan gildistíma.

Á að víkja

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er ekki tekið undir með Reykjavíkurborg um að samþykki byggingarfulltrúa á áformunum hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem sé kæranleg. Vitnar nefndin til bæði ákvæða aðalskipulags um svæðið og deiliskipulagsins um það. Í deiliskipulaginu standi að gert sé ráð fyrir að byggingin á Grettisgötu 87 víki og lagt sé til að þar verði byggt íbúðarhúsnæði.

Í ákvörðuninni sé hins vegar gert ráð fyrir samskonar húsi undir sambærilega starfsemi sem gert sé ráð fyrir að víki fyrir íbúðum í gildandi deiliskipulagi svæðisins. Þá beri þess að geta að þar sem gert sé ráð fyrir bílastæðum í hinum samþykktu byggingaráformum liggi fyrir kvöð um garð á stækkaðri lóð þeirri sem snýr að Grettisgötu.

Nefndin telur þar af leiðandi að hin samþykktu byggingaráform fari í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins og verði því með vísan til mannvirkjalaga að fella ákvörðun byggingarfulltrúa, um að samþykkja að húsið verði endurbyggt til reksturs réttingaverkstæðis og heildsölu, úr gildi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir sakborninga í Gufunesmálinu hafa enga iðrun sýnt

Segir sakborninga í Gufunesmálinu hafa enga iðrun sýnt
Fréttir
Í gær

Segir miklar afhjúpanir í Geirfinnsmálinu framundan – „Þá förum við út með þetta“

Segir miklar afhjúpanir í Geirfinnsmálinu framundan – „Þá förum við út með þetta“
Fréttir
Í gær

Ný von fyrir Úkraínu – Bandaríkin senda fullkomin flugskeyti

Ný von fyrir Úkraínu – Bandaríkin senda fullkomin flugskeyti
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Læknir á Landspítalanum notaði sjúkraskrár til að afla viðskiptavina fyrir einkafyrirtæki

Læknir á Landspítalanum notaði sjúkraskrár til að afla viðskiptavina fyrir einkafyrirtæki