Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI og fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir mikið rætt og ritað um erlent starfsfólk í íslenskri ferðaþjónustu. Og því miður litast sú umræða mjög oft af neikvæðni og niðurrifi.
„Okkur hættir til að sjá skrattann í hverju horni í stað þess að horfa á hið jákvæða og átta okkur á að þetta fólk er í flestum tilfellum fengur fyrir okkur.“
Segir Bjarnheiður í færslu í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar að hún hafi farið hringinn í kringum landið í liðinni viku og heimsótt nokkur hótel, veitingastaði og önnur þjónustufyrirtæki á landsbyggðinni. Í ferðinni hafi hún átt samskipti við fjöldann allan af starfsfólki á gólfinu, bæði Íslendinga og útlendinga.
„Heilt yfir var upplifunin af þessum starfsmönnum mjög góð. Erlendu starfsmennirnir voru vel þjálfaðir, glaðir, þjónustulundaðir og virtist líða mjög vel á vinnustaðnum sínum. Vissulega töluðu þeir fæstir íslensku, en bættu það upp með jákvæðni og faglegum vinnubrögðum. Við það má bæta að upplýsingar, matseðlar og þess háttar, voru nánast alls staðar á íslensku (auk ensku), þó halda mætti af upphrópunum að enska væri orðin allsráðandi tungumál í ferðaþjónustu á Íslandi.“
Bjarnheiður segir eitt atriði standa upp úr eftir ferðina, heimsókn í bakarí á Reyðarfirði, sem hefur íslenskuna í hávegum. Um er að ræða Sesam brauðhús handverksbakarí, sem starfað hefur síðan árið 2011.
„Þar réð lögum og lofum ungur, brosmildur, pólskur strákur. Hann bauð öllum góðan daginn á íslensku og gerði sitt besta til að afgreiða Íslendinga á íslensku. Hann tók vel á móti erlendum gestum og spurði fjölskyldu sem kom inn hvort þetta væri fyrsta heimsókn þeirra til landsins. Þegar þau jánkuðu því tók hann til við að sýna þeim séríslenskar vörur eins og kleinur, flatkökur og fleira og segja þeim að þetta yrðu þau bara að smakka.
Þau brugðust glöð við og settust brosandi með hlaðna diska af séríslensku góðgæti við borð. Þetta fannst mér til mikillar fyrirmyndar og mættum við öll læra af þessum strák, sem greinilega er góður „sendiherra“ fyrir Ísland og það sem íslenskt er, þó hann sé með pólskt vegabréf og tali ekki fullkomna íslensku.“