Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, bendir á svívirðilegt óréttlæti sem er bundið í íslenska skattkerfinu. Það er að fólk sem greiðir sér fjármagnstekjur greiði ekkert í samneyslu útsvarsins.
Í tilefni af hátekjulistanum sem birtur var nýlega í fjölmiðlum, unninn upp úr gögnum Skattsins, skrifar Halla færslu á samfélagsmiðlum. Samanburðurinn sem hún birtir er sláandi.
„VR félagi með 820 þúsund krónur í mánaðartekjur greiðir tæplega 1,5 milljónir á ári í útsvar, sem aftur er nýtt til að halda úti þjónustu sveitarfélagsins,“ segir Halla. „Maður sem er með 11 milljónir króna í tekjur á mánuði en velur að reikna sér aðeins lítinn hluta sem laun, eða um 690 þúsund krónur, greiðir ekki nema rúmlega 1,2 milljónir í útsvar.“
En þetta er ekki allt. Til eru enn svæsnari dæmi.
„Einnig eru dæmi um fjármagnstekjuhafa sem greiða bara alls ekki neitt í útsvar. Þeir aka samt sömu vegi, nýta sér skólana og fá sorpþjónustu eins og almennt launafólk, en leggja ekkert af mörkum,“ segir hún. „Óréttlætið í þessu blasir við og það er löngu tímabært að útfæra réttlátar leiðir til að taka á þessu.“