Skipulagsfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar tekur ekki undir tillögu sem lögð hefur verið fram að breytingu á deiliskipulagi vegna áhuga á enn frekari stækkun Hótel Viking í bænum en nú þegar standa yfir framkvæmdir vegna stækkunar á hótelinu, sem fela í sér meira en tvöföldun á fjölda herbergja. Í umsögn skipulagsfulltrúa kemur meðal annars fram að tillagan taki ekki nógu mikið tillit til þeirrar byggðar sem fyrir er en samkvæmt henni yrði að færa friðað hús sem stendur fyrir aftan hótelið en í umsögninni er húsið sagt sögufrægt. Er annars tekið jákvætt í hugmyndir um frekari uppbyggingu á svæðinu en sagt að þær þurfi að vinna betur og í samvinnu allra málsaðila.
Umsögnin var rædd á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs bæjarins. Fram kemur að samkvæmt tillögu lóðarhafa að breyttu deiliskipulagi muni hótelið, sem stendur við Víkingastræti, stækka með því að byggð verði herbergjaálma samsíða Suðurgötu, sem er fyrir aftan hótelið í eilítilli hæð. Nýja hótelálman myndi samkvæmt tillögunni ná langt út fyrir lóðarmörk lóðarhafa og inn á land bæjarins. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hús númer 24 að Suðurgötu, sem nefnt hefur verið Bristol, verði flutt af lóðinni til að rýma fyrir nýbyggingunni. Í umsögninni kemur raunar fram að nú þegar sé í byggingu 3-4 hæða nýbygging með 65 herbergjum sem tengist núverandi hóteli þar sem fyrir séu 42 herbergi og 13 í smáhýsum. Hafi húsnæði sem hýsti áður Vélsmiðju Hafnarfjarðar en síðar Gaflaraleikhúsið verið rifið til að rýma fyrir nýbyggingunni.
Þessi tillaga snýst því um álmu sem á að koma til viðbótar við þá nýbyggingu sem nú þegar er verið að byggja við hótelið
Um húsið að Suðurgötu 24, sem yrði samkvæmt tillögunni að víkja, segir í umsögn skipulagsfulltrúa að það hafi verið byggt árið 1907. Verslun sem nefndist „Bristol“ var í húsinu og Prentsmiðja Hafnarfjarðar var í kjallara hússins á árunum 1907 til 1910. Segir að varðveislugildi hússins sé hátt og húsið friðað, vegna aldurs og sögu. Húsið eigi sér sögu sem prentsmiðja, samkomuhús hjálpræðishersins og íbúðahús. Gönguleiðin milli hússins og Suðurgötu hafi verið hluti af upphaflegri legu götunnar og sé merkileg sem slík.
Segir í umsögninni að yfirstandandi stækkun á Hótel Viking um 65 herbergi, með 3-4 hæða nýbyggingu, til viðbótar við þau 55 herbergi sem fyrir séu, muni breyta útliti og yfirbragði þess verulega. Viðbótar byggingarmagn við þetta samkvæmt tillögunni yrði 2.720 fermetrar ofanjarðar, auk 720 metra kjallara en ekki er gert ráð fyrir bílastæðum í tillögunni.
Segir í umsögninni að ljóst sé að tillagan gangi út á uppbyggingu langt utan lóðarmarka Suðurgötu 24, austan megin í átt að Suðurgötu og norðan megin í átt að Suðurgötu 18, inn á land í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Æskilegt sé að svo mikil breyting sé skoðuð í stærra samhengi og með hliðsjón af stefnu um hvernig sé æskilegt að þróa byggð á svæðinu sem liggi á mörkum tvenns konar byggðamynsturs, stórgerðari atvinnubyggðar til vesturs og smágerðari íbúðarbyggðar til austurs, og almennrar þróunar miðbæjar Hafnarfjarðar.
Skipulagsfulltrúinn segir enn fremur að tillagan taki ekki nægilegt tillit til byggðamynstursins í nágrenninu og þá sérstaklega hinnar smágerðu íbúðabyggðar til austurs. Þar að auki muni byggingin í óbreyttri mynd skerða útsýni til sjávar fyrir þá íbúa sem búa fyrir ofan svæðið.
Einnig eru gerðar sérstakar athugasemdir við hugmyndir í tillögunni um hvernig haldið skuli á bílastæðamálum en samkvæmt henni sé ekki gert ráð fyrir fjölgun bílastæða verði þessi önnur viðbygging við hótelið, til viðbótar við þá sem nú þegar er í byggingu, að veruleika. Það muni skerða almenn bílastæði á svæðinu verulega.
Um húsið að Suðurgötu 24 segir enn fremur í umsögninni að það sé sögufrægt og gegni mikilvægu hlutverki við að varðveita bæði götumynd og byggðamynstur í gamla miðbæ Hafnarfjarðar. Ef breyta eigi staðsetningu hússins sé eðlilegra að horfa til þess að færa það og reikna því stað við Suðurgötu þannig að það yrði áfram hluti af götumyndinni.
Skipulagsfulltrúi segir að lokum í umsögn sinni að það sé jákvætt að stefna að uppbyggingu á svæðinu. Mælt sé hins vegar með því að það verði gert í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar og lóðarhafa Suðurgötu 24 ogí samvinnu við Minjastofnun og Byggðasafn Hafnarfjarðar, í ljósi friðunar hússins. Mælir skipulagsfulltrúi með því að ef horfa eigi til þess að breyta deiliskipulagi svæðisins verði það gert með tilliti til hagsmuna stærra svæðis og þess að umrætt svæði sé á mörkum atvinnunýtingar og íbúðanýtingar. Auk þess sé það hluti af elstu byggð bæjarins. Ljóst sé því að breyting á deiliskipulaginu verði að fara fram í samvinnu lóðarhafa og Hafnarfjarðarbæjar.
Umhverfis og skipulagsráð bæjarins tók undir umsögn skipulagsfulltrúans og því er ekki útlit fyrir að það verði af viðbótarstækkun Hótel Viking í þeirri mynd sem tillagan kveður á um.