Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankans og er ákvörðunin í takti við það sem greiningardeildir bankanna höfðu spáð.
Verðbólga var 4% í júlí og minnkaði um 0,2 prósentur frá mánuðinum á undan. Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans eykst hún aftur á næstu mánuðum en tekur síðan að hjaðna er kemur fram á næsta ár. Óvissa um verðbólguhorfur er þó áfram mikil.
„Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Spennan í þjóðarbúinu hefur því minnkað eins og sjá má á hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði. Enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum, laun hafa hækkað mikið og verðbólguvæntingar mælast enn yfir markmiði,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.
Þá er bent á að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri sé enn nokkur verðbólguþrýstingur til staðar.
„Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans. Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“