fbpx
Miðvikudagur 20.ágúst 2025
Fréttir

Tíðindin í Tekjublaðinu: Sigríður hæstlaunaðasti lobbýistinn og óvæntur bankastarfsmaður sló bankastjórum við

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. ágúst 2025 20:39

Sigríður Margrét Oddsdóttir, Árni Sigurðsson og Rósa Guðbjartsdóttir. Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út og í þetta skipti hefur ritstjórn blaðsins flett upp tekjum 5.450 Íslendinga í völdum flokkum. Rauði þráðurinn er hin sami og áður. Forstjórar, næstráðendur, lögfræðingar og lobbýistar þéna mikið en listamenn og nánast allir íþróttamenn þéna lítið, eins og reyndar blaðamenn ef undan er skilinn ákveðinn aðili með starfstöð í Hádegismóum.

Ýmis tíðindi, mismerkileg, má þó lesa út úr tekjulistanum og hér verður stiklað á þeim sem ritstjórn DV kom auga á.

Nýja konan fær talsvert minna en karlinn

Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, var langlaunahæsti forstjóri landsins með 40,1 milljón króna á mánuði. Það er talsverð hækkun milli ára hjá Árna sem var með um 12 milljónir króna á mánuði í fyrra. Marel hefur árum saman umbunað forstjórum sínum ríkulega fyrir árangur í rekstri og þannig var fyrri forstjóri, Árni Oddur Þórðarson, iðulega hæstlaunaðasti forstjóri ársins á sínum tíma.

Árni Oddur hefur það enn ágætt en hann var með 16,6 milljónir á mánuði í fyrra. Aðeins auðkýfingurinn Davíð Helgason, stofnandi Unity, skákaði honum á forstjóralistanum en Davíð var með 33 milljónir króna á mánuði.

Þegar skrollað er niður listann má sjá að María Björk Einarsdóttir forstjóri Símans, er með rétt rúmar 4 milljónir á mánuði. María er umtalsvert launalægri en fyrrverandi forstjóri, Orri Hauksson, sem iðulega var í hópi allra launahæstu forstjóra landsins og það réttilega í ljósi stærðar fyrirtækisins á íslenskum markaði.

Ólöf skákar bankastjóranum

Á lista Frjálsrar verslunar yfir starfsmenn fjármálafyrirtækja trónir óvænt nafn á toppnum, Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Íslandsbanka, er skráð með 7,5 milljónir króna á mánuði og er langt á undan bankastjórunum þremur, Benedikt Gíslasyni hjá Arionbanka (6,2 milljónir), Lilju Björk Einarsdóttur hjá Landsbankanum (4,5 milljónir króna) og Jóni Guðna Ómarssyni hjá Íslandsbanka (4,4 milljónir króna).

Áætluð laun Ólafar skýrast mögulega að einhverju öðru en hreinum mánaðartekjum frá bankanum en toppsætið verður ekki af henni tekið enda vandlega skrásett á prenti í mörg þúsund eintökum.

Sigríður spænir fram úr Heiðrúnu Lind

Íslenskir lobbýistar eru vel aldir og um árabil hefur verið hörð barátta um hver sé sá best launaðasti. Halldór Benjamín Þorbergsson, þá framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins, vann eitt árið en í fyrra var Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í fyrsta sæti með hálfri milljón meira á mánuði en Sigríður Margrét Oddsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Það snýst þó heldur betur við í ár og Sigríður Margrét spænir fram úr Heiðrúnu Lind og var með 6,2 milljónir króna á mánuði í fyrra á meðan sú síðarnefnda er með 5 milljónir króna á mánuði. Sigurður Hannesson hreppti síðan bronsið með 4,5 milljónir króna á mánuði.

Þá hefur forvitni áhugafólks um árlega launakeppni lobbýista verið svalað.

Sægreifar á víð og dreif

Þeir sem moka inn á íslenskum sjávarútvegi eru í allskonar flokkum í blaði Frjálsrar verslunar. Þannig eru Björn Hembre, forstjóri Arnarlax (8,7 milljónir á mánuði), Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri Iceland Seafood (7,6 milljónir), Þorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju (7 milljónir) og Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja (6,7 milljónir) á meðal launahæstu forstjóra.

Gunnlaugur S. Gunnlaugsson, stjórnarform. Lýsis, (7,4 milljónir), Birna Einarsdóttir, stjórnarform. Iceland Seafood (5,3 milljónir) og Einar Sigurðsson, stjórnarform. Ísfélagsins (4,7 milljónir) tróna efst á listanun yfir Ýmsa menn úr atvinnulífinu.

Þá er Jens Garðar Helgason launahæstur alþingismanna en tekjur hans árið 2024, um 2,9 milljónir á mánuði, skýrast af störfum hans sem aðstoðarforstjóri eldisfyrirtæksins Laxa.

Sérstakur listi yfir sjómenn er svo í blaðinu en þar eru engir landkrabbar á blaði. Launahæsti sjómaðurinn var stýrimaðurinn Sigurður V. Jóhannesson frá Neskaupstað með 5,2 milljónir króna á mánuði.

Bæjarstjóri skákar borgarstjóra

Einar Þorsteinsson tórði sem borgarstjóri Reykjavíkur nánast allt árið 2024 og var með 3 milljónir króna á mánuði í laun. Í ljósi stærðar borgarinnar mætti ætla að borgarstjórinn væri sá launahæsti á sveitarstjórnarstigi en raunin er önnur. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, skákaði Einari og var með um 3,2 milljónir króna á mánuði. Aðrir bæjarstjórar voru skammt undan. Regína Ásvaldsdóttir í Mosfellsbæ var með rúmlega 2,8 milljónir, Ásthildur Sturludóttir á Akureyri var með tæpar 2,8 milljónir og Ásdís Kristjánsdóttir í Kópavogi og Almar Guðmundsson í Garðabæ voru bæði með rétt rúmlega 2,7 milljónir króna.

Almennt virðist vera afar gott fyrir veskið að vera í forsvari fyrir sveitarfélag og skiptir stærð þeirra þar ekki öllu máli.

Hjónin þung á fóðrum

Davíð Oddsson trónir eins og vanalega á toppi launalista fjölmiðlamanna með 6,6 milljónir króna á mánuði sem að stórum hluta eru tilkomnar vegna ríkulegra eftirlaunaréttinda.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar, og eiginmaður hennar, Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri miðilsins, eru í efstu sætum á sama lista en bæði eru þau með um 1,8 milljónir króna.

Heimildin hefur glímt við rekstrarerfiðleika og þurfti til að mynda á dögunum að grípa til uppsagna á þaulreyndum blaðamönnum. Í því ljósi vekur það athygli hvað hjónin eru þung á  fóðrum.

Og þeir sem hanga inni

Það er gömul saga og ný að ef ritstjórn Frjálsrar verslunar ákveður eitt árið að fletta einhverjum ákveðnum einstaklingi upp þá er viðkomandi fastur þar inni um ókomna tíð.

Margir amast ekki við því, finnst það nánast upphefð að vera á listanum, en gamanið fer að kárna ef fyrrverandi hálaunamenn hætta að vinna og fara kannski bara að stunda fargufur og jóga.

Dæmi um það er fyrrum bæjarstjóri Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, sem hangir inni á lista sveitastjórnarmanna með 85 þúsund krónur á mánuði. Ármann fór reyndar ekki í jóga heldur fasteignabrask og fjárfestingar en heilunaráhrifin eru svipuð.

En hvernig losna menn af listanum? Það er með því að finnast ekki. Í eina tíð var ágætis möguleiki að týnast ef viðkomandi flutti milli sveitarfélaga. Þá voru álagningaskrár skattstjóra lagðar fram í stórum grænum möppum sem tveggja manna teymi skönnuðu í gegnum. Ef teymið með Reykjavíkurmöppuna fann ekki einhvern þá var of mikið flækjustig að fara að þefa viðkomandi uppi í öðrum sveitarfélagamöppum.

Helvítis tæknin eyðilagði hins vegar þennan möguleika. Núna er tölunum flett upp í pdf-skjölum í tölvum eftir kennitölum og því finnast allir á endanum.

Eina leiðin er því að borga ekki skatta í eitt ár, til dæmis með því að flytja erlendis. Vissulega ansi mikið vesen en svona spilast bara leikurinn.

Það er nefnilega líka þannig að ef Frjáls Verslun gleymir manni eitt árið þá er nefnilega ansi líklegt að maður sé gleymdur um ókomna tíð!

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Heiðrún segir fólki að anda rólega: „Merkilegt að sjá hve mörgu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum sem stenst ekki skoðun“

Heiðrún segir fólki að anda rólega: „Merkilegt að sjá hve mörgu hefur verið haldið fram í fjölmiðlum sem stenst ekki skoðun“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Ásgerður sendir neyðarkall: „Það rignir yfir mig tölvupóstum“

Ásgerður sendir neyðarkall: „Það rignir yfir mig tölvupóstum“
Fréttir
Í gær

Segir Carbfix hafa hefnt sín á Heimildinni fyrir gagnrýna umfjöllun

Segir Carbfix hafa hefnt sín á Heimildinni fyrir gagnrýna umfjöllun
Fréttir
Í gær

Fær loksins leikskólapláss þegar sonurinn er að verða þriggja ára

Fær loksins leikskólapláss þegar sonurinn er að verða þriggja ára
Fréttir
Í gær

Birgir Örn segir hægt að afstýra mörgum kynferðisbrotum með einföldum hætti – „Hennar vilji er alltaf mikilvægari en þín mínútugredda“

Birgir Örn segir hægt að afstýra mörgum kynferðisbrotum með einföldum hætti – „Hennar vilji er alltaf mikilvægari en þín mínútugredda“
Fréttir
Í gær

Sara gagnrýnir kennaranámið: „Ég þarf ekki að mæta í heil­an tíma og gera þessa hluti“

Sara gagnrýnir kennaranámið: „Ég þarf ekki að mæta í heil­an tíma og gera þessa hluti“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pétur Geir var barinn með kúbeini og hamri í Bríetartúni – „Þetta var morðtilraun“

Pétur Geir var barinn með kúbeini og hamri í Bríetartúni – „Þetta var morðtilraun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir fundinn hafa snúist um endurreisn samstarfs Bandaríkjanna og Rússlands – „Úkraína varð aukaatriði“

Segir fundinn hafa snúist um endurreisn samstarfs Bandaríkjanna og Rússlands – „Úkraína varð aukaatriði“