Kærunefnd velferðarmála hefur fellt úr gildi synjun sveitarfélagsins Múlaþings á beiðni foreldra um að fötluð dóttir þeirra fengi að nýta sér frístundarþjónustu í meiri mæli en venjulega á meðan verkfalli kennarra í grunnskóla hennar, í sveitarfélaginu, stóð fyrr á þessu ári. Stuðningsfulltrúi sem alla jafna var með stúlkunni á meðan hún var í skólanum var ekki í verkfalli en sveitarfélagið meinaði honum að sinna stúlkunni á skólatíma, á meðan kennararnir voru í verkfalli. Nefndin segir hins vegar þessa ákvörðun ekki hafa samræmst lögum.
Úrskurður í málinu féll fyrir um 6 vikum en var ekki birtur fyrr en í dag.
Foreldrar stúlkunnar höfðu óskað eftir því að hún fengi pláss í frístund, í verkfallinu, á þeim tímum sem hún væri undir venjulegum kringumstæðum í skólanum. Vísuðu foreldrarnir í því skyni til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Múlaþing hafnaði því hins vegar á þeim grundvelli að fengi stúlkan að vera í frístund á skólatíma væri það ígildi verkfallsbrots.
Foreldrarnir kærðu synjunina til úrskurðarnefndar velferðarmála og vísuðu ekki síst til áðurnefndra laga. Sögðu foreldrarnir lögin leggja ríkar skyldur á herðar sveitarfélaga. Synjunin hafi brotið í bága við lögin enda falli þjónustuþörf stúlkunnar ekki niður þótt verkföll skelli á og kennsla falli niður.
Foreldrarnir bentu nefndinni á að dóttir þeirra sé með stuðningsfulltrúa með sér allan daginn í skólanum Stuðningsfulltrúinn hafi ekki verið í verkfalli og hafi mætt til vinnu en hafi ekki verið veitt heimild til að sinna stuðningi við dóttur þeirra á skólatíma. Vegna synjunarinnar hafi þau foreldrarnir einnig neyðst til að taka sér frí frá vinnu enda sé stúlkan ekki fær um að vera ein heima eins og jafnaldrar hennar almennt.
Foreldranir bentu einnig á að þjónustan sem dóttir þeirra eigi rétt á samkvæmt títtnefndum lögum sé ekki bundin við það að hún í skóla. Stúlkan gangi í skóla af því það sé skólaskylda í landinu en eigi rétt á þjónustu, vegna fötlunar sinnar, í skólanum. Sá réttur haldist líka utan veggja skólans og óháð öllum verkföllum kennara.
Sögðu foreldrarnir það ekki standast að þjónusta við stúlkuna á skólatíma hefði verið verkfallsbrot enda hafi beiðnin ekki snúist um að kenna henni heldur aðeins veita henni þjónustu sem hún ætti rétt á í sínu daglega lífi.
Vildu foreldrarnir einnig meina að beiðni þeirra um frístundarþjónustu væri óháð umsókn til undanþágunefndar Kennarasambandsins en í þeirri umsókn var farið fram á stúlkan fengi kennslu í verkfallinu. Foreldrarnir sögðust hins vegar aldrei hafa fengið svar frá undanþágunefndinni en ítrekuðu að hver sem niðurstaðan varðandi þá umsókn væri leysti það Múlaþing ekki undan því að veita dóttur þeirra lögbundna þjónustu.
Í andsvörum Múlaþings var farið ítarlega yfir þá þjónustu sem stúlkunni hefur verið veitt hjá sveitarfélaginu. Frístundarþjónustan hafi verið óbreytt í verkfallinu og starfað frá klukkan 14:30 til 16 alla virka daga. Foreldrarnir sögðust hins vegar hafa farið fram á að á meðan verkfallinu stæði yrði frístundarþjónustan í boði frá klukkan 9 til 16 en því hafi verið hafnað.
Hvað varðar stuðningsfulltrúann sem er með stúlkunni á meðan hún er í skólanum en fékk ekki að sinna henni í verkfallinu benti Múlaþing á að hann starfi undir leiðsögn sérkennara og umsjónarkennara. Meðal verkefna stuðningsfulltrúans sé að sjá til þess að stúlkan vinni verkefni sín í náminu og aðstoða hana við það. Þjónustu stuðningsfulltrúa sé því ætlað til að vera viðbót við þá þjónustu sem kennarar veiti. Öll önnur þjónusta sem stúlkan fái hjá sveitarfélaginu hafi verið óbreytt í verkfallinu fyrir utan þjónustu stuðningsfulltrúans og kennara.
Þar sem ekki hafi verið leyfilegt að kenna í verkfallinu og beiðni um undanþágu þess efnis fyrir stúlkuna hafi ekki verið svarað hafi ekkert verið fyrir stuðningsfulltrúann að gera þar sem hans helsta hlutverk sé að aðstoða stúlkuna við nám.
Vildi Múlaþing meina að á meðan verkfallinu stóð hafi annað starfsfólk ekki mátt sinna stúlkunni á skólatíma. Þess vegna hafi það ekki verið mögulegt að hafa frístundina opna frá klukkan 9 á morgnana. Tilfelli sem vísað væri í þegar frístund opnaði svo snemma á starfsdögum kennara væru ekki sambærilegt enda væru kennarar á slíkum dögum í vinnu en ekki að sinna börnunum. Aðalatriðið hafi verið það að ekki megi ganga í störf fólks sem sé í verkfalli.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðamála er farið ítarlega yfir lagalegan grundvöll málsins. Nefndin segir ljóst að starfsemi frístundarþjónustu Múlaþings hafi ekki legið niðri sökum verkfalls kennara heldur hafi sveitarfélagið metið það svo að ekki mætti hafa frístundarþjónustuna opna á skólatíma þar sem með því væri verið að ganga inn í störf kennara í verkfalli. Nefndin segir hins vegar að sveitarfélagið hafi ekki getað gengið út frá því við ákvörðun sína um að synja stúlkunni um lengri frístundarþjónustu að um verkfallsbrot hafi verið að ræða, meðal annars þar sem starfsmenn frístundarþjónustunnar voru ekki í verkfalli og þjónustan var almennt opin.
Nefndin bendir á samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sé sveitarfélögum skylt að bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu meðal annars á þeim dögum þegar skóla starfa ekki, öðrum en lögbundnum frídögum.
Niðurstaða nefndarinnar er því sú að synjun Múlaþings á að veita stúlkunni lengri frístundarþjónustu á meðan verkfallinu stóð hafi ekki verið í samræmi við lögin. Ákvörðunin er því felld úr gildi. Verkfallinu er þó löngu lokið en niðurstaðan gefur samt sem áður til kynna að ekki hafi verið gætt að rétti stúlkunnar til þjónustu á meðan verkfallinu stóð.