fbpx
Fimmtudagur 07.ágúst 2025
Fréttir

Gerð afturreka með sölubann á Cocoa Puffs og Lucky Charms – Sönnunarbyrði var lögð alfarið á söluaðila

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 6. ágúst 2025 16:18

Ekkert er nú því til fyrirstöðu að Cocoa Puffs og Lucky Charms sem framleitt er í Bandaríkjunum sé selt í íslenskum verslunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matvælaráðuneytið hefur fellt úr gildi ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarness frá 2023 þar sem ónefndum söluaðila, sem líklega er Samkaup hf, var gert að taka úr sölu morgunkornin Lucky Charms og Cocoa Puffs, sem framleidd eru í Bandaríkjunum, og vísað málinu aftur til eftirlitsins. Áður hafði réttaráhrifum ákvörðunarinnar verið frestað og ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sem og ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem öðrum söluaðilum var gert að hætta sölunni verið felldar úr gildi. Það virðist því ekki annað blasa við en að umræddar vörur sem fluttar hafa verið til landsins frá Bandaríkjunum fái að vera enn um sinn í hillum verslana hér á landi. Fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að í þessu máli hafi skort á rannsókn af hálfu Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarness og sönnunarbyrðin hafi svo til öll verið lögð á söluaðilann.

Segir í úrskurðinum að með þremur úrskurðum ráðuneytisins frá 18. ágúst 2023  hafi það fellt úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um sölustöðvun á Cocoa Puffs og Lucky Charms hjá öðrum rekstraraðilum. Hafi það verið gert með vísan til þess að rannsóknarskyldu hefði ekki verið fullnægt, ásamt því að ekki hefði legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi matvælalaga um að morgunkornið uppfyllti ekki kröfur laganna og stjórnvaldsreglna settra samkvæmt þeim.

Nýtt mál

Í kjölfarið hóf Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarness nýtt mál á hendur á þeim söluaðila sem þessi nýi úrskurður snýr að. Erindi var sent aðilanum í september 2023 um fyrirhugaða sölustöðvun á vörunum þar sem vísað var til þess að að vörurnar samrýmdust ekki þeim kröfum sem gerðar væru til matvæla á evrópska efnahagssvæðinu og þar með á Íslandi. Tekið var fram að sá grunur væri byggður á yfirlýsingu frá framleiðanda varanna í Bandaríkjunum, General Mills sem sent var íslensku heildsölunni Nathan & Olsen. Samkvæmt lögum um matvæli bæri stjórnandi matvælafyrirtækis ábyrgð á að uppfylltar væru kröfur laga og stjórnvaldsreglna og að sú skylda væri á hans herðum að sannprófa að kröfum væri fullnægt. Hefði hann ekki fullnægjandi upplýsingar um innihaldsefni vörunnar þá þyrfti hann að afla þeirra upplýsinga frá framleiðanda.

Svar barst ekki og sendi Heilbrigðiseftirlitið þá ítrekun um að sala skyldi stöðvuð. Svar barst þá og hélt söluaðilinn því fram að fyrra erindið hefði ekki komist til skila. Var vísað til þess að innihaldsefni varanna kæmu skýrt fram á umbúðum þeirra sem prentaðar væru af framleiðanda. Því væri auðsótt að bera saman reglugerð við innihaldslýsingu til þess að fá fullnægjandi niðurstöðu um það hvort efnin væru leyfileg. Gera þyrfti þá kröfu til eftirlitsins að það greindi frá því hvaða efni í vörunum það teldi vera ólögmætt.

Fyrir Bandaríkin

Deildu söluaðilinn og Heilbrigðiseftirlitið næstu vikur og þá ekki síst um bréfið frá General Mills þar sem tekið var fram að vörurnar séu framleiddar fyrir bandarískan markað og með bandarískt regluverk í huga. Vildi eftirlitið meina að í þessu fælist staðfesting á því að morgunkornið væri ekki í samræmi við kröfur Evrópulöggjafar.

Í svörum sínum til Matvælaráðuneytisins tók söluaðilinn ekki undir það. Innihaldsefnin uppfylltu allar kröfur evrópskra reglugerða sem hefði verið sannreynt með efnagreiningu hjá fyrirtæki í Þýskalandi. Vildi fyrirtækið sömuleiðis meina að Heilbrigðiseftirlitið hefði ekki uppfyllt ákvæði matvælalaga um sölustöðvun. Rannsókn málsins hafi aðeins falist í skoðun á áðurnefndu bréfi frá General Mills sem aflað hafi verið frá samkeppnisaðila. Það hafi ekki fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem hvíli á Heilbrigðiseftirlitinu. Brotið hafi einnig verið gegn andmælarétti og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Eftirlitið stóð fast á því að söluaðilinn hafi ekki sýnt fram á vörurnar væru rétt merktar og að ekki lægju fyrir fullnægjandi upplýsingar um innihaldsefni þeirra. Vildi það meina að aðeins framleiðandinn gæti sannað að vörurnar uppfylltu evrópskar kröfur. Í ljósi yfirlýsingar General Mills og hversu ólíkar bandarískar og evrópskar reglur um vinnslu matvæla væru yrði að gera þær kröfur að framvísað yrði gögnum um innihald varanna. Það hafi skort á í þessu máli. Söluaðilinn hafi til að mynda endurmerkt efnið „Caramel color“ á pakkningum fyrir íslenskan markað sem litarefið E-150 sem komi hvergi fyrir í reglugerð um aukaefni. Söluaðilinn hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna að þetti litarefni sé leyfilegt samkvæmt evrópskum reglum. Vildi eftirlitið sömuleiðis meina að það hefði fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Bréf General Mills væri fullnægjandi og það væri ekki í verkahring eftirlitsins að fá nákvæmar upplýsingar frá bandaríska fyrirtækinu um innihaldsefnin.

Allt liggi fyrir

Söluaðilinn ítrekaði það mat sitt að allar upplýsingar um innihaldsefnin lægju fyrir. Fullyrðingar um að ekki væri hægt að styðjast við bandarísku innihaldslýsinguna stæðust engin rök. Þegar kemur að merkingu litarefnisins „Caramel color“ á umbúðum vildi söluaðilinn meina að eðlilegra hefði verið að fara fram á úrbætur fyrst áður en sölustöðvun væri beitt. Þessi rök hafi enn fremur ekki verið kynnt þegar tilkynning um sölustöðvun hafi fyrst borist.

Í niðurstöðu Matvælaráðuneytisins segir að margumrætt bréf General Mills sé ekki fullnægjandi grundvöllur í málinu þar sem þar séu ekki færð rök fyrir þeirri fullyrðingu framleiðandans að vörur hans Lucky Charms og Cocoa Puffs uppfylli ekki evrópskar kröfur. Ráðuneytið segir þá kröfu Heilbrigðiseftirlitsins á hendur söluaðilanum að afla gagna um að morgunkornið uppfyllti evrópskar kröfur hafi falið í sér að sönnunarbyrðin í málinu hafi alfarið verið lögð á hann. Það sé ekki hægt að skýra ákvæði matvælalaga þannig að þetta sé eðlilegt verklag í slíkum málum. Eftirlitið hafi átt að rannsaka málið og sú skylda hafi ekki verið uppfyllt.

Ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarness frá 2023 um sölubann á amerísku útgáfu Lucky Charms og Cocoa Puffs er því felld úr gildi og lagt fyrir eftirlitið að taka málið fyrir að nýju. Hvort það mun gera aðra tilraun til sölubanns á eftir að koma í ljós.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“

Vallarstjórinn í Þorlákshöfn ómyrkur í máli eftir atvik í gær – „Engin tilraun var gerð til að kanna eða spyrja um ástand starfsmannsins“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi
Fréttir
Í gær

Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“

Íris tók námslán árið 2011 sem hún er ekki byrjuð að borga – „Og hvar stendur það núna ef þið hélduð að BA-gráðu lánið mitt væri martröð?“
Fréttir
Í gær

Þorvaldur segir líkur á öðru gosi: „Það væri þá í kringum jólin eða eitthvað svoleiðis“

Þorvaldur segir líkur á öðru gosi: „Það væri þá í kringum jólin eða eitthvað svoleiðis“
Fréttir
Í gær

Flóttamaður gagnrýnir flóttamenn – Íslendingar sagðir vera með fordóma ef útlendingi er hrósað fyrir að tala góða íslensku

Flóttamaður gagnrýnir flóttamenn – Íslendingar sagðir vera með fordóma ef útlendingi er hrósað fyrir að tala góða íslensku
Fréttir
Í gær

Eigendur brugghúss ósáttir við Kaleo og hafa engar skýringar fengið – „Við erum vonsvikin“

Eigendur brugghúss ósáttir við Kaleo og hafa engar skýringar fengið – „Við erum vonsvikin“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja útlit fyrir að gosinu sé lokið

Segja útlit fyrir að gosinu sé lokið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bilun í Íslandsbanka – Vefur og app liggja niðri

Bilun í Íslandsbanka – Vefur og app liggja niðri