Konur eru marktækt neikvæðari en karlar gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýlegri könnun Prósent. Yngri svarendur eru jákvæðari gagnvart þéttingu en þeir sem eldri eru. Reykvíkingar eru sömuleiðis marktækt jákvæðari en íbúar nágrannasveitarfélaga, sem eru neikvæðari en Reykvíkingar og íbúar landsbyggðarinnar.
Í könnuninni sem framkvæmd var 1. – 21. júlí var spurt að:
Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu?
Úrtakið var 1850 manns og var svarhlutfall 50%
Af þeim sem tóku afstöðu þá segjast 56% vera neikvæð, 18% eru hvorki jákvæð né neikvæð og 26% jákvæð gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu.
Konur eru marktækt neikvæðari en karlar gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu.
Því yngri sem svarendur eru því jákvæðari eru þau gagnvart þéttingu byggðar. Þau sem eru 55-64 ára eru marktækt neikvæðari en þau sem eru 18-54 ára.
Íbúar Reykjavíkur eru marktækt jákvæðari en íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur. Íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur eru marktækt neikvæðari en íbúar Reykjavíkur og landsbyggðarinnar.