Sigurgeir Svanbergsson sjósundkappi er kominn til Englands og hefur sund sitt yfir Ermarsund í nótt aðfaranótt laugardagsins 19. júlí, áætlað er að hann leggi af stað frá Dover um klukkan eitt að breskum tíma. Sundið er áætlað um 34 km en með straumum og veðri getur það lengst töluvert. Sigurgeir gerir ráð fyrir um 20 klukkustundum í sundtíma.
Markmiðið með þrekraun Sigurgeirs er að vekja athygli á starfsemi Píeta samtakanna og til fjáröflunar á húsnæðiskaupum fyrir samtökin.
Í för með Sigurgeiri er Sigrún Þuríður Geirsdóttir. Árið 2015 synti Sigrún fyrst íslenskra kvenna ein yfir Ermarsund. Sigrún mun gegna hlutverki liðsstjóra teymis Sigurgeirs í ferðinni. Sundið tók Sigrúnu 22 klukkustundir og 34 mínútur og vegalengdin sem hún synti var 62,7 kílómetrar. Jóhannes Jónsson eiginmaður Sigrúnar er einnig með í förinni en hann gerði heimildarmynd um sund Sigrúnar sem heitir Þegiðu og syntu!
Ef marka má reynslu Sigrúnar Þuríðar á sundinu þá má gera ráð fyrir því að Sigurgeir eigi eftir að takast á við töluverðar áskoranir á sundleið sinni. Um er að ræða verulega þrekraun og við hvetjum ykkur sem flest til að fylgjast með sundi Sigurgeirs í beinni á Instagram, Facebook og Facebooksíðu Píeta.
Símtöl eða SMS
905-5501 → 1.000 kr.
905-5503 → 3.000 kr.
905-5505 → 5.000 kr.
905-5510 → 10.000 kr.
Netstyrkur hér
Bankastyrkur
Kennitala: 410416-0690
Reikningur: 0301-26-041041
AUR appið
Notandanafn: @pieta