Sigurður B. Arnarson leitar að miðaldra manni sem kallar sig Kristbjörn og ekur um á hvítum sendibíl. Maðurinn var á ferðinni í Blesugróf í fyrrakvöld og bankaði upp á hjá öldruðum frænda Sigurðar. Sagðist hann vera kominn til að ná í mótorhjól í eigu Sigurðar, sem var fyrir aftan húsið í garðinum. Hann fór síðan burtu með mótorhjólið.
En Sigurður þekkir ekki þennan Kristbjörn og hann hafði enga heimild til að fjarlægja hjólið. „Ef einhver þekkir til þessa manns og hjálpar mér að ná í þýfið þá fær sá hinn sami 100 þúsund krónur í reiðufé,“ segir Sigurður í Facebook-færslu um málið, en líka þetta:
„Ef þú ert þessi Kristbjörn og ert að lesa þetta, þá ætla ég að gefa þér séns á að skila mér hjólinu áður en ég mun finna þig, sem ég mun 100% gera á næstu dögum.“