Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, fagnar lúkningu veiðigjaldamálsins og segir að engin önnur ríkisstjórn hafi áður vogað sér að fram gegn sérhagsmunum stórútgerðarinnar.
„Fyrri ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og nú síðast einnig Vinstri grænna hafa þvert á móti farið í einu og öllu eftir því sem stórútgerðin hefur krafist af þeim,“ segir hún í aðsendri grein á Vísi. „Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert slagorð Flokks fólksins að sínu: Fólkið fyrst og svo allt hitt.“
Ásthildur Lóa segir að meirihlutinn hafi viljað koma ýmsum öðrum þjóðþrifamálum í gegn en stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir með fordæmalausu málþófi. Þau munu hins vegar birtast fullbúin þegar þing komi saman eftir átta vikur.
„Þrátt fyrir óbilgirni stjórnarandstöðunnar unnust margir stórir sigrar á vorþinginu. Ný lög um breytingar á útreikningi veiðigjalda fela í sér leiðréttingu sem þjóðin hefur kallað eftir í mörg ár og jafnvel áratugi. Samkvæmt þeim miðast auðlindarentan til þjóðarinnar nú við markaðsvirði afla en ekki verð sem útgerð og fiskvinnsla í eigu sama aðila ákveða sjálfir. Það er stór sigur,“ segir Ásthildur Lóa í greininni.
Það hafi ekki komið á óvart að ein sterkasta sérhagsmunablokk í landinu hafi lagt allt undir til að koma í veg fyrir þessa leiðréttingu.
„Ríkisstjórn Flokks fólksins , Viðreisnar og Samfylkingar stóðst áhlaup og rándýra auglýsinga- og óhróðursherferð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og umboðsmanna þeirra samtaka á Alþingi. Stóðst linnulausar árásir þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknar sem víluðu ekki fyrir sér að hagræða sannleikanum og reyna að ljúga því að þjóðinni að með lögunum ætlaði ríkisstjórnin að þurrka upp hagnað útgerðarinnar. Ekkert er fjarri lagi,“ segir hún.
Ræður og andsvör hafi orðið fleiri en 3 þúsund og í þetta fóru 160 klukkustundir, fjórar starfsvikur. Hótað hafi verið að engu máli yrði hleypt í gegn án þess að fallið yrði frá veiðigjaldafrumvarpinu.
Ásthildur Lóa segir hins vegar að ríkisstjórnin sé rétt að byrja. Hún hafi ekki gleymt strandveiðisjómönnum, fötluðu fólki eða eldri borgurum.
„Strax í þessari viku verður tryggt að bætt verði í aflaheimildir strandveiðisjómanna. Þá er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun sem samþykkt var á Alþingi á mánudag að greiðslur til fatlaðs fólks og ellilífeyrisþega hækki samkvæmt launavísitölu. Frumvarp þar að lútandi verður síðan lagt fram strax í haust,“ segir hún að lokum. „Þingmenn stjórnarflokkanna fagna þeim sigurum sem náðust á þessu fyrsta þingi. Við höfum og munum standa saman öll sem einn og hlökkum til að mæta til þings á ný. Næg eru verkefnin.“