fbpx
Mánudagur 14.júlí 2025
Fréttir

Dómurinn yfir Ymi Art birtur: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 14. júlí 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhugnanlegar lýsingar er að finna í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Ymi Art Runólfssyni, fertugum manni sem sakfelldur hefur verið fyrir að hafa banað móður sinni á heimili hennar í Breiðholti í október 2024.

Ymur Art neitaði sök fyrir dómi og sagðist hafa komið að móður sinni blóðugri en á vettvangi játaði hann verknaðinum mörgum sinnum fyrir lögreglumönnum og öryggisverði sem kallaður var til en móðirin sendi frá sér neyðarkall laust fyrir miðnætti þetta kvöld. Á vettvangi sagðist Ymur Art hafa stungið móður sína með fjórum hnífum en aðeins tveir hnífar fundust. Hann sagðist mörgum sinnum hafa drepið móður sína og við öryggisvörðinn sagði hann: „Gakktu í bæinn, hún er dauð.“

Hljóðlaust myndband úr öryggismyndavél ýtir einnig undir sekt hans en um það segir í dómnum:

„Í gögnum málsins má finna myndbandsupptöku inni í íbúðinni frá þessum tíma. Upptakan sem snýr alfarið inn í stofuna er hljóðlaus en inn á hana hefur verið sett
hljóðupptaka frá Öryggismiðstöðinni þar sem heyra má samskipti ákærða og móður hans við starfsmann Öryggismiðstöðvarinnar. Við skoðun á myndbandinu má sjá hvar ákærði virðist hafa verið að rífast og skammast við móður sína skömmu áður en neyðarkallið var sent út. Ákærði virðist hafa verið nokkuð æstur, a.m.k. baðar hann út höndum þegar móðir hans sést ganga út úr stofunni í göngugrind. Ákærði yfirgaf stofuna og hvarf úr mynd um það leyti sem starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar spurði móður hans í gegnum kallkerfið hvort hún þyrfti á aðstoð að halda, kl. 23:44. Ákærði kom til baka tæplega mínútu síðar, virðist þá nokkuð móður og andstuttur, og klæddi sig úr hettupeysu og bol. Hann hvarf síðan aftur úr mynd, en kom skömmu síðar og byrjaði að taka saman muni sem hann setti í svartan bakpoka. Hann yfirgaf síðan stofuna í u.þ.b. 20 sekúndur þegar hann væntanlega opnaði fyrir öryggisverðinum. Við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði öryggisvörðurinn frá því að ákærði hefði opnað dyrnar og sagt við hann: „Gakktu í bæinn, hún er dauð“ og hafi endurtekið það þegar hann hafi spurt hann hvað hann væri að meina.“

Sjá einnig: Blóðidrifin saga Yms – Stakk föður sinn og banaði móður sinni

Í dómnum kemur fram að Ymur játaði sök á vettvangi og sagðist hafa banað móður sinni með hnífum. Einnig kemur fram að hann ítrekaði játninguna á leiðinni á lögreglustöðina.

Með geðræn vandamál en sakhæfur

Í hegningarlögum er kveðið á um að mönnum skuli ekki refsað ef þeir sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands hafi verið áfærir um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Í dómnum segir að túlka beri ákvæði um ósakhæfi þröngt en meginreglan sé sú að mönnum sé refsað fyrir afbrot sem þeir hafa framið. „Samkvæmt því leiðir það ekki til sakhæfisskorts þótt sá, sem uppvís hefur orðið að refsiverðum verknaði, hafi brenglað raunveruleikaskyn eða sé haldinn ranghugmyndum af völdum geðsjúkdóms nema hann hafi alls ekki verið fær um að hafa stjórn á gerðum sínum þegar hann vann verkið,“ segir í dómnum.

Af þremur matsmönnum taldi einn að Ymur Art væri ósakhæfur en tveir töldu hann sakhæfan. Kjarnatriðið var að hann hafi gert sér grein fyrir afleiðingum verknaðar síns á verknaðarstundu. Myndbandsupptökur frá vettvangi þykja benda til þess að Ymi hafi verið sjálfrátt. Um þetta segir í dómnum:

„Þrátt fyrir að verknaðurinn sjálfur lýsi hamslausri reiði verður að fallast á með yfirmatsmönnum að hegðun ákærða samkvæmt myndbandsupptökum bendi ekki til þess að ákærði hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum vegna [geðsjúkdóms] í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga á verknaðarstundu. Á öryggismyndavélarupptöku þegar móðir hans var enn á lífi virðist ákærði pirraður í samskiptum við hana en ekki á þann hátt að það veki upp grunsemdir um [geðsjúkdóm]. Ákærði virkar síðan í þokkalegu jafnvægi strax eftir atburðinn, skiptir um föt og fer að setja niður dót í tösku. Hann sest síðan niður og fær sér meiri bjór og virðist bíða eftir öryggisverði eða lögreglu. Þá er ákærði rólegur þegar hann opnar fyrir öryggisverðinum og sæmilega áttaður á því sem hafi gerst. Ákærði er einnig rólegur við handtökuna og hlýðir fyrirmælum um að leggjast niður og setja hendurnar fyrir aftan bak. Hann gerir sér grein fyrir hvaða afleiðingar þetta komi til með að hafa og talar um að hann muni fara í 18 ára fangelsi og biður um að sér sé fyrirgefið.“

En þó að Ymur sé metinn sakhæfur er geðrænt ástand hans talið vera það slæmt að fangelsi geti ekki sinnt vandamálum hans. Er honum því ekki gerð refsing en honum gert að sæta gæslu á viðeigandi stofnun.

Dóminn má lesa hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimm í haldi í skotvopnamáli

Fimm í haldi í skotvopnamáli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Telja að flugmennirnir hafi valdið flugslysinu sem kostaði 260 manns lífið

Telja að flugmennirnir hafi valdið flugslysinu sem kostaði 260 manns lífið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Egill furðaði sig á notkun orðskrípisins „kjarnorkuákvæði“ – Áttaði sig svo á því að hann var sennilega sá fyrsti sem kom því á flug

Egill furðaði sig á notkun orðskrípisins „kjarnorkuákvæði“ – Áttaði sig svo á því að hann var sennilega sá fyrsti sem kom því á flug