Karlotta Ósk Óskarsdóttir, langhlaupari með meiru, lauk um helgina Gotlands-hlaupinu og var þar með fyrst íslenskra kvenna til að ljúka 500 km. hlaupi. Alls hljóp Karlotta 511 kílómetra sem hún lauk á sjö dögum, 13 klukkustundum og 10 mínútum.
Karlotta hefur verið duglega með að deila upplifun sinni af því hvernig henni hefur miðað áfram á Facebook-síðu sinni. Þegar hlaupinu var lokið sagðist hún ætla að skrifa nánari uppfærslu síðar en núna væri komið að „sturtu, borða, sofa…“. Svo mörg voru þau orð.
Greinilegt er að þrekvirkið hefur reynt verulega á en sé rennt yfir færslur Karlottu má sjá að hún hefur glímt við blöðrur á fótum í mörg hundruð kílómetra, ágengar moskítóflugur, köngulær og ýmislegt fleira á leiðinni. En í mark komst Karlotta og sagðist vera „ótrúlega hamingjusöm“ með árangurinn í færslu á áðurnefndri síðu sinni.