fbpx
Fimmtudagur 10.júlí 2025
Fréttir

Valkyrjurnar tóku Hildi og minnihlutann til bæna – „Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður Alþingis“ 

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 10:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir,  forsætisráðherra,  ávarpaði þingheim óvænt í upphafi þingfundar í dag. Fulltrúar annarra flokka gátu svo brugðist við og er tími allra jafn. Tilefnið var augljóslega sú ákvörðun Hildar Sverrisdóttur. þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, hafi slitið þingfundi um miðnætti í gærkvöldi án umboðs forseta eða meirihluta forsætisnefndar.

Þingfundur hófst á Alþingi kl. 10 í morgun. 

Þegar þingfundur hófst kl. 10 var einn þingmaður stjórnarandstöðunnar í þingsal, kl. 10.08 gekk annar þingmaður stjórnarandstöðunnar inn í salinn.

Sjá einnig: Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks sleit fundi Alþingis án umboðs

„Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður Alþingis“

Kristrún sagði í ávarpinu að komin væri upp ný staða í íslenskum stjórnmálum sem væri fordæmalaus í sögu lýðveldisins.

„Minni hlutinn á Alþingi viðurkennir ekki umboð meiri hlutans til að fylgja sinni stefnu og stendur í vegi fyrir lýðræðislegri afgreiðslu mála hér á Alþingi. Framferði minni hlutans á sér engin fordæmi og stjórnarandstaðan hefur gengið lengra í málþófi en hefur nokkurn tíma verið gert á Alþingi Íslendinga. Sú staða sem upp er komin er alvarleg fyrir lýðræðið og stjórnskipan landsins og þýðir í raun að minni hlutinn viðurkennir ekki niðurstöður kosninga heldur freistar þess að stýra þinginu þrátt fyrir að vera ekki með meiri hluta á Alþingi,“ sagði Kristrún.

Sagði hún ennfremur að lýðræðið væri viðkvæmt og að mikið væri í húfi að sýna að lýðræðið virkaði.

„Forseti. Það er skylda mín sem forsætisráðherra að standa vörð um lýðræðið í landinu. Ég lýsi því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi: Við munum verja lýðveldið Ísland. Við munum verja stjórnskipan landsins og heiður Alþingis,“ sagði Kristrún.

Aldrei upplifað annað eins ástand

Hinar valkyrjurnar tvær, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, stigu næst upp í pontu og tóku undir orð Kristrúnar.

„Með langlengstu þingreynslunnar  ætla ég að leyfa mér að fullyrða að ég hef aldrei, aldrei upplifað það ástand sem er í þinginu núna. Akkúrat þetta snýst einmitt um virðingu fyrir lýðræðinu, virðingu fyrir þingræðinu, virðingu fyrir þeim leikreglum sem við höfum komið okkur saman um,“ sagði Þorgerður Katrín.

Hún benti síðan á ákvörðun Hildar og bætti við: „Er verið að klippa á lýðræðið? Er verið að ganga á svig við leikreglur? Það er alveg í samræmi við það hvers konar jaðarflokkur Sjálfstæðisflokkurinn, er að verða. Því miður er það þannig. Það er mjög mikilvægt að þingmenn nýti málfrelsi. Það er mikilvægt að við virðum málfrelsið en það er líka jafnmikilvægt að stoppa misnotkun á málfrelsi þingmanna sem er notað til þess eins að koma í veg fyrir að ég og allir þingmennirnir sem eru hér inni getur notið stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að greiða atkvæði um mál,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Það sjá allir að þetta er skrumskæling á lýðræðinu“

Inga Sæland var á sömu slóðum og var heitt í hamsi. „Það sjá allir að þetta er skrumskæling á lýðræðinu. Þetta er misnotkun á leikreglum lýðræðisins. Það er það sem er undir. Þessi ríkisstjórn mun ekki láta undan kröfum sérhagsmunaafla og þau eru hér inni í formi stjórnarandstöðunnar,“ sagði Inga og bætti síðar við.

„Ég velti því fyrir mér, frú forseti: Hvert erum við að stefna? Hvert erum við komin þegar þingforseti, varaforseti Alþingis, stígur hér fram rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi og rífur þingfund algerlega án heimildar, algjörlega fordæmalaust og algjörlega án nokkurs umboðs? Hvert stefnir fallega landið okkar? Hvert stefnum við lýðræðinu? Hvert stefnum við þingræðinu? Hver erum við? Við erum kjörnir fulltrúar í gildum þingkosningum sem fram fóru núna á síðasta ári. Við erum hér með verk til að vinna landi og þjóð til heilla og við höfum til þess lýðræðislegt umboð og við höfum til þess takkaborðið okkar, gulur, rauður, grænn, til að ákveða það í þessum þingsal hvernig við viljum verja okkar atkvæði,“ sagði Inga.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt