Lögregla framkvæmdi húsleitir og handtökur í Reykjavík í gær í tengslum við rannsókn Lögreglunnar á Norðurlandi eystra á skipulagðri glæpastarfsemdi. Aðgerðirnar fóru fram í Kópavogi og Laugardalnum í Reykjavík í gær. Við aðgerðirnar naut lögregla aðstoðar Sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Í tilkynningu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra um málið segir:
„Í samvinnu við önnur lögregluembætti vinnur lögreglan á Norðurlandi eystra enn að rannsókn á máli er varðar skipulagða brotastarfsemi. Fyrstu aðgerðir í málinu voru þann 18. júní síðastliðinn en síðan þá er búið að fara í húsleitir á þremur stöðum.
Í gær fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveit Ríkislögreglustjóra í húsleitir á tveimur stöðum. Annars vegar í Laugardalnum í Reykjavík eins og fram hefur komið í fréttum og hins vegar í Kópavogi. Aðgerðirnar voru framkvæmdar sem liður í rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra og að undangengnum úrskurðum frá Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Tveir aðilar voru handteknir í aðgerðum gærdagsins og eru fimm aðilar nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Í dag verður lagt mat á hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þeim sjötta.
Með þessum aðgerðum hefur lögreglan framkvæmt sex húsleitir víðsvegar á landinu.“