fbpx
Fimmtudagur 03.júlí 2025
Fréttir

Akureyrarbær sagði nei við Kisukot – Kattavinir harmi slegnir

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 3. júlí 2025 11:30

Kisukot hefur bjargað hundruðum katta á undanförnum 13 árum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kisukot á Akureyri hefur ákveðið að hætta að aðstoða sveitarfélagið með ketti. Eftir tveggja ára tafir á svörum hafnaði Akureyrarbæ loks samningi við Kisukot og vildi aðeins styrkja starfsemina um 500 þúsund krónur í eitt skipti.

„Eftir 2 ára bið eftir svörum frá Akureyrarbæ varðandi þjónustusamning við þá er svarið loksins komið. Svarið er nei. Þeir ætla ekki að gera samning við Kisukot,“ segir í tilkynningu samtakanna í gær. „En ætla að styrkja um 500.000 einu sinni. 13 ára vinna fyrir bæjarfélagið er metin á heila hálfa milljón.“

Ragnheiður Gunnarsdóttir hefur starfrækt hjálparsamtökin Kisukot – Kattaaðstoð í meira en áratug. Hefur mörg hundruð köttum verið bjargað. Árið 2023 samþykkti bæjarráð að hefja samningaviðræður við hana um að koma starfseminni í húsnæði sem uppfyllir kröfur um starfsleyfi. Það virðist ekki hafa gengið eftir.

„Ég hef því ákveðið að hætta að þjónusta Akureyrarbæ og verða starfsmenn Akureyrarbæjar framvegis að sinna þeirri vinnu sem ég hef sinnt fyrir bæjarfélagið,“ segir í tilkynningu Kisukots. Einnig er nefnt að nágrannasveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Eyjafjarðarsveit hafi boðist til að borga fyrir þá villiketti sem koma úr þeirra sveitarfélögum.

Hefur tilkynningin fengið mikil viðbrögð frá kattavinum á Akureyri og víðar. Er Akureyrarbær sakaður um að sinna ekki dýravelferðarmálum.

„Bæjarfélagið ykkar virðist ítrekað komast undan lagalegri skyldu til að bregðast við og aðstoða dýr í neyð innan sveitarfélagsins. Þetta er verulega svartur blettur á starfi ykkar og vekur alvarlegar spurningar um ábyrgð og gildi þeirra sem fara með vald og ákvörðunarvald innan bæjarstjórnar,“ segir ein kona í athugasemd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt