Ísland tapaði gegn Finnlandi í fyrsta leik sínum á EM í Sviss. Hér neðar eru einkunnir leikmanna Íslands.
Finnar voru mun betri í fyrri hálfleik og gekk íslenska liðinu illa að fóta sig.
Snemma í þeim seinni fékk Hildur Antonsdóttir sitt annað gula spjald og þar með rautt. Ótrúlegt en satt átti Ísland fínan kafla manni færri í kjölfarið en það var slökkt í okkur á ný þegar Katariina Kosola kom Finnum yfir á 70. mínútu.
Ísland fékk stöður og til að mynda eitt dauðafæri í restina, þar sem Sveindísi Jane Jónsdóttur brást bogalistin.
Ekki tókst að jafna og lokatölur 1-0 fyrir Finna. Í riðlinum leika einnig Noregur og Sviss.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir – 7 (Maður leiksins)
Varði oft vel og gat lítið gert í marki Finna.
Guðný Árnadóttir – 4
Átti agalegan dag í vörninni og hættan hjá Finnum kom yfirleitt hennar megin, samanber markið þeirra.
Glódís Perla Viggósdóttir (46′) – 5
Landsliðsfyrirliðinn var ekki klár í leikinn, sama hvort það séu meiðslin sem hún var að glíma við á tímabilinu eða annað. Fór af velli í hálfleik en sýndi allt í lagi frammistöðu fram að því.
Ingibjörg Sigurðardóttir – 5
Þokkaleg vakt hjá Ingibjörgu í vörninni.
Guðrún Arnardóttir – 5
Hlutirnir gerðust að mjög litlu leyti hennar megin í fyrri hálfleik og ekki mikið við hana að sakast í miðverði í seinni hálfleik.
Hildur Antonsdóttir – 4
Átti ágætis fyrri hálfleik en fær sitt annað gula spjald og þar með rautt í seinni.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (84′)- 5
Átti ágætis rispur á kafla í seinni hálfleik og tók við sér eftir að við lentum manni færri. Heilt yfir of lítið í boltanum.
Alexandra Jóhannsdóttir – 6
Sýndi baráttu og vilja, vann boltann nokkrum sinnum vel.
Hlín Eiríksdóttir (54′) – 5
Kom mjög lítið út úr henni á kantinum heilt yfir.
Sandra María Jessen (63′) – 5
Sást mjög lítið til hennar.
Sveindís Jane Jónsdóttir – 6
Týnd í fyrri hálfleik. Tók aðeins við sér í seinni og oft miðpunktur sókna okkar er við reyndum að jafna í lokin.
Varamenn
Sædís Rún Heiðarsdóttir (46′) – 5
Agla María Albertsdóttir (54′) – 6
Dagný Brynjarsdóttir (62′) – 5