Í morgun var tekist á um það í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur hvort Ásgeiri Arnóri Stefánssyni verði gert að sæta atvinnurekstrarbanni til þriggja ára.
DV hefur ítrekað fjallað um sviðna jörð Ásgeirs og gjaldþrot fyrirtækja hans í byggingarrekstri.
Gjaldþrotin nema nær milljarði samtals, en um er að ræða fimm félög, þar af þrjú sem voru úrskurðuð gjaldþrota árið 2024. Ásgeir hefur einnig verið ákærður fyrir skattsvik í rekstri félaga sinna og fengið sektir vegna þess. Árið 2016 hrundi byggingarkrani á vegum fyrirtækis hans í miðborginni og var heppni að ekki hlaust manntjón af.
Hér neðar í fréttinni eru félögin og gjaldþrot þeirra tilgreind nánar.
Blaðamaður DV mætti við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi í morgun. Þar krafðist Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri þrotabús Börk eignarhald ehf. þess að Ásgeir Arnór Stefánsson, sem var framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eini stjórnarmaður Börk eignarhald ehf. verði gert að sæta atvinnurekstrarbanni, vegna háttsemi hans við rekstur þess félags og eldri félaga.
Í málflutningi sínum reifaði skiptastjóri kröfu sína um atvinnurekstrarbann til þriggja ára, eða skemur ef dómari liti svo á, þó ekki styttra en til tveggja ára. Sagði sækjnandi að líta bæri til rekstrarsögu Ásgeirs í heild sinni og sagði hann hafa gerst sekan um kennitöluflakk. Hann hafi á síðustu 11 árum stýrt 5 félögum sem hafa öll farið í gjaldþrot, þar af hafi ógreiddar kröfur árið 2024 úr 3 félögum verið rúmar 560 milljónir. Í einu þeirra, Aðalbóli, hafi um 8 milljónir fengist greiddar. Í því félagi sem sóknaraðili er skiptastjóri í, Börk eignarhald, hafi náðst sátt um rúmar 58 milljónir.
Beðinn af dómara um að útskýra nánar sáttina sagði sóknaraðili að Börk eignarhald hefði byggt raðhús að Víkurgötu 3, 5 og 7 í Garðabæ og hefði hann sem skiptastjóri gert samkomulag við eigendur um að láta kröfur sínar falla niður gegn því að fá afsal afhent fyrir eignunum. Eftir hafi staðið kröfur frá TM, Hringrás, Fagkaup og Skattinum upp á samtals rúmar 20 milljónir.
Sjá einnig: Sviðin jörð gjaldþrotakóngs í Garðabæ – „Hann er ekki einu sinni búinn að klára húsið okkar“
Sóknaraðili sagði í málflutningi sínum að um „gríðarstórt samfélagslegt tjón sé að ræða. Einn einstaklingur skilur eftir sig högg upp á rúman milljarð í heildina á þessu sex ára tímabili sem hann hefur verið með rekstur.“
Sóknaraðili sagði engan vafa leika á því að Ásgeir hafi verið raunverulegur stjórnandi Börk eignarhald, skráður framkvæmdastjóri og með prókúru. Segir hann varnaraðila byggja á að einn mánuð af síðustu 18 mánuðum áður en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta hafi aðrir stjórnendur einnig verið í félaginu og þeir beri þannig einnig ábyrgð.
Sóknaraðili benti einnig á að Ásgeir hafi stundað rekstur með því að nýta sama eða svipað nafn fyrirtækja áfram. Tók hann sem dæmi Örk byggingarfélag sem fór í þrot árið 2011, árið 2013 hafi Ásgeir stofnað annað félag með sama nafni. Það félag fór einnig í gjaldþrot og þá var nafni þess breytt í R18 og rekstur færður í Geirs verk ehf. og því nafni breytt í Örk bygg. Ásgeir hafi fyllt út og skrifað undir allar tilkynningar til fyrirtækjaskrár.
Sóknaraðili rakti einnig að Ásgeir hafi ekkert reynt til að varna tjóni og vísaði þar til þriggja fasteigna við Víkurbraut í Garðabæ sem Börk eignarhald byggði og átti að afhenda sumarið 2021 fullkláraðar, en tókst að afhenda með herkjum árið eftir en fasteignirnar voru þá ókláraðar. Kaupendur lýsi því sem svo að á meðan tafir stóðu í 3 ár hafi ekki náðst í Ásgeir og hann lítið sést á byggingarstað. Kaupendur hafi því þurft að leita réttar síns með aðstoð lögmanna.
Sóknaraðili taldi því öll skilyrði atvinnurekstrarbanns til 3 ára uppfyllt og sagði það vera „kröfur í samfélaginu um að taka eigi á þeim ósóma sem kallast kennitöluflakk. Alveg ljóst að þetta er síendurtekið, samfélagslegt tjón, fyrirtæki og einstaklingar verða fyrir tjóni. Fullréttlætanlegt að leggja viðkomandi í atvinnurekstrarbann.“
Í ræðu sinni mótmælti Magnús Jónsson, lögmaður Ásgeirs, öllum málsástæðum sóknaraðila. Sagði hann töluverðar ásakanir settar fram sem ekki væru studdar rökum eða sönnunargögnum. Óskýrleiki væri í gögnum sem sóknaraðili leggur fram og bókhald félagsins sé ekki lagt fram. Varnaraðili hafi ekki verið boðaður í skýrslutöku til skiptastjóra, en mætt þegar héraðsdómur boðaði hann. Sagði lögmaður Ásgeirs sóknaraðila ekki vísa í atriði í stjórnun eða rekstri sem voru aðfinnsluverð. Sagði hann aðra hafa komið að byggingum á Víkurgötu í gegnum félagið Aðalból. Þegar verkefnið var komið í öngþveiti hafi aðrir eigendur farið úr verkefninu og skilið Ásgeir einan eftir í súpunni, sem hafi gert sitt besta til að reyna að afhenda húsin eða semja við eigendur þeirra. Ættu þeir eigendur að bera sömu ábyrgð, ef einhver á að bera ábyrgð. Sagði lögmaðurinn að skiptastjóri hefði samþykkt einhliða mat frá kaupendum sem hafi blásið upp tjón sitt og að samningur hans við kaupendur hafi valdið skjólstæðingi hans verulegu fjárhagstjóni.
Sjá einnig: Sviðin jörð gjaldþrotakóngs í Garðabæ – „Hann er ekki einu sinni búinn að klára húsið okkar“
Lögmaður varnaraðila sagði mikið gert úr atvinnurekstrarsögu Ásgeirs sem stofnaði fyrsta félagið 22 ára gamall með frænda sínum og hafði enga reynslu af atvinnurekstri. Sagði lögmaður Ásgeirs að útskýra mætti öll gjaldþrot félaga hans og þau hefðu ekkert með Ásgeir sjálfan að gera. R18 ehf. hefði orðið gjaldþrota 2017 út af óhappi starfsmanns við krana í miðbænum. Utanaðkomandi atvik sem olli gjaldþroti þess félags. Gjaldþrot Örk bygg sem varð gjaldþrota árið 2023 megi rekja til gífurlegra rekstrarerfiðleika út af COVID sem fór verst með félög í verktakabransa vegna domino-áhrifa.
Lögmaður varnaraðila sagði leyndarhyggju hjá sóknaraðila að birta ekki samskipti sín við varnaraðila. Hafi eitthvað óeðlilegt verið í félaginu Börk eignarhald hefði skiptastjóri átt að nefna það. Ásgeir átti félagið Aðalból með tveimur öðrum einstaklingum, sem átti Börk eignarhald. Ásgeir hafi síðan staðið einn eftir og reynt að bjarga félaginu. Skiptastjóri Aðalbóls staðfesti að bókhald var fært og ársreikningum skilað, tilraunir voru gerðar til að rétta reksturinn, Ásgeir hafi verið samvinnuþýður og hafi skilað bifreiðum sem voru til staðar.
Lögmaður Ásgeirs sagði það orðið alvanalegt í verktakabransanum að aðilar hætti að greiða til félaga sem þeir telja í rekstrarerfiðleikum, það hafi gerst hjá varnaraðila. Innheimtumál taki óhemjulangan tíma. Aðalból hafi unnið innheimtumál fyrir héraðsdómi.
Lögmaður Ásgeirs sagði það „vont fordæmi, áhættusamt og íþyngjandi fyrir fólk sem ætlar í atvinnurekstur ef horft er alltaf til fortíðar, því hægt sé að vera skynsamur eftir á. Varnaraðili hafi gripið til allra ráðstafana til að koma rekstrinum í betra horf.“
Lögmaður Ásgeirs sagði að hvergi væri bent á nein brot eða annmarka gegn lögum um ársreikninga, lögum um bókhald eða öðrum lögum þar um eins og jafnan er í málum og dómum sem varða atvinnurekstrarbann. Hvergi væri nefnt eitt einasta dæmi um vanrækslu varnaraðila, eða kennitöluflakk, saknæma athöfn. Varnaraðili hafi gefið skýringu á öllu sem hann var spurður um í skýrslutöku hjá skiptastjóra. Öllum lögbundnum sköttum og gjöldum var skilað. Engar tilfærslur eða bankamillifærslur til varnaraðila hafi verið af reikningum félagsins.
„Hvar eru hinir skaðlegu viðskiptahættir? Farið fram á gífurlega íþyngjandi úrræði gagnvart varnaraðila.“
Í varakröfu sinni fór lögmaður Ásgeirs fram á að ef dómari féllist á kröfu um atvinnurekstrarbann þá væru sérstakar aðstæður og fullt tilefni til að marka atvinnurekstrarbanni skemmri tíma. Öll gjaldþrot félaga Ásgeirs voru hefðbundin, COVID hafi hafi áhrif, bókhald hafi verið haldið, varnaraðili hafi reynt að koma félögum í horf.
Aðalatriðið er að félagið skuldaði engin opinber gjöld, í raun ef eitthvað væri óeðlilegt í félaginu ættu fyrri framkvæmdastjóri og eigendur einnig að svara fyrir félagið. Skilyrði atvinnurekstrarbanns væru því ekki uppfyllt. Varnaraðili hafi rekið félagið í góðri trú og almannahagsmunir krefjist ekki atvinnurekstrarbanns.
„Verði að gefa mönnum tækifæri að læra af fyrri mistökum. Ekki lagalegt tilefni til að samþykkja kröfu sóknaraðila og beri að hafna henni.“
Sóknaraðili vísaði til þess að í skýrslu Ásgeirs hjá skiptastjóra hafi hann viðurkennt að kaupendur eignanna að Víkurbraut ættu gagnkröfur. Það væri ekki á hendi skiptastjóra að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til að innheimta greiðslur. Samkomulag sem skiptastjóri gerði við eigendur fasteignanna sé bundið trúnaði. Hér sé undir saga varnaraðila í viðskiptum og það sé skylda skiptastjóra að fara fram á atvinnurekstrarbann.
Örk byggingarfélag, kt. 490109-0210, stofnað 2009.
Úrskurðað gjaldþrota 3. maí 2011, skiptalok 21. september 2011.
Geirs verk ehf., kt. 640909-0560, stofnað 2009. Nafnabreyting 5. október 2016 í Örk bygg ehf.
Úrskurðað gjaldþrota 8. febrúar 2023. Skiptum lokið 29. apríl 2024.
Lýstar kröfur 322.793.266 kr, ekkert fékkst greitt.
Örk byggingarfélag ehf., kt. 520213-1200, stofnað 2013. Nafnabreyting 5. október 2016 í R18 ehf.
Úrskurðað gjaldþrota 16. mars 2017. Skiptum lokið 22. mars 2018.
Lýstar kröfur 587.120.474 kr.
Samþykktar forgangskröfur 16.778.615 kr.
Ógreiddar kröfur 570.341.859 kr.
Aðalból byggingarfélag ehf., kt. 451009-0360, stofnað 2009.
Úrskurðað gjaldþrota 17. apríl 2024. Skiptum lokið 27. nóvember 2024.
Lýstar kröfur 224.977.125 kr.
Kröfur upp á 8.435.517 kr. fengust greiddar.
Ógreiddar kröfur 216.541.608 kr.
Börk eignarhald ehf., kt. 6503191170, stofnað 2019.
Úrskurðað gjaldþrota 3. apríl 2024. Skiptum lokið 11. september 2024.
Lýstar kröfur 79.315.060 kr.
Sátt náðist um kröfur upp á 58.472.000 kr.
Ógreiddar kröfur 20.843.060 kr.
Lýstar kröfur samtals 1.214.205.925 kr.
Ógreiddar kröfur samtals 1.130.519.793 kr, eða rúmur milljarður króna.
Sjá einnig: Ásgeir fær himinháa sekt fyrir skattsvik – Heppni að ekki fór verr þegar byggingarkrani hrundi í miðbænum
Við aðalmeðferð í morgun sagði sóknaraðili að Ásgeir hefði einnig verið ákærður fyrir skattsvik vegna rekstur Aðalbóls, en honum væri ekki kunnugt hver staða þess máls væri.
Í apríl greindi DV frá ákærunni. Ásgeiri er gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Aðalbóls byggingarfélags ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir árið 2023, samtals tæplega 50 milljónir króna. Ásgeiri er ennfremur gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta í rekstri félagsins fyrir hluta áranna 2022 og 2024 og allt árið 2023. Samtals eru þessi vanskil upp á tæplega 30 milljónir króna og meint heildar skattsvik nema um 78 milljónum króna.
Sjá einnig: Ásgeir aftur ákærður fyrir skattsvik – Með slóð gjaldþrota á eftir sér