Albaninn Angjelin Sterkaj, sem afplánar 16 ára dóm fyrir morð á landa sínum, Armando Beqirai, fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði í febrúar árið 2021, gekk fyrir skömmu í það heilaga. DV hafa borist myndir frá brúðkaupinu en margt er á huldu um það, t.d. nafn brúðarinnar.
Angjelin var dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir morðið í Héraðsdómi Reykjavíkur haustið 2021. Dómurinn var þyngdur í 20 ár í Landsrétti en mildaður niður í 16 ár í Hæstarétti. Þrír samverkamenn Angjelins hlutu vægari dóma en þau fjögur voru álitin hafa haft samverknað um glæpinn.
Málið átti upptök sín í ógnunum í garð Antons Kristins Þórarinssonar sem var um tíma grunaður um hlutdeild í málinu en var síðan hreinsaður af grun og var ekki ákærður í málinu. Í janúar árið 2021 átti sér stað mikill gagnaleki til fjölmiðla sem gaf sterkar vísbendingar um að Anton hefði verið uppljóstrari lögreglunnar um skeið varðandi viðskipti í fíkniefnaheiminum. Voru þessar upplýsingar taldar setja Anton í hættu.
Athöfnin var haldin í Grundarfjarðarkirkju fyrir skömmu. Á meðfylgjandi mynd sést Anton lengst til hægri. Hvað sem líður vendingum í Rauðagerðismálinu og baksviði þess þá liggur fyrir að náin tengsl eru á milli Antons og Angjelins.
Athöfnin fór fram í Grundarfjarðarkirkju. Ljóst er að Angjelin hefur þurft dagsleyfi eða lengra leyfi til að gifta sig utan fangelsismúranna. Skammt frá er Kvíabryggja, sem er opið fangelsi, en Angjelin hefur verið talinn afplána dóm sinn á Hólmsheiði. Hann gæti þó hafa verið vistaður tímabundið á Kvíabryggju í tengslum við brúðkaupið.
DV sendi fyrirspurn um málið til fangelsismálastjóra, Birgis Jónassonar. Hann segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en í almennu svari hans segir: „Leyfi úr fangelsi eru ekki veitt nema að ígrunduðu máli. Ef um ræðir alvarleg brot er höfð sérstök gát við mat á því hvort leyfi sé veitt.“
Birgir segir ennfremur:
„Fjallað er um leyfi úr fangelsi í V. kafla laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016. Um dags- og fjölskylduleyfi er fjallað í 59. og 60. gr. laganna og skammtímaleyfi í 61. gr. Í ákvæðunum er m.a. fjallað um lengd leyfa. Um ströng lagaskilyrði er að ræða en ákvarðanir eru einnig háðar ákveðnu mati forstöðumanns fangelsis og Fangelsismálastofnunar, m.a. um hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.“
Í umræddum lagaákvæðum segir meðal annars að dagsleyfi komi fyrst til skoðunar þegar fangi hefur afplánað þriðjung refsitímans í fangelsi. Angjelin hefur afplánað nokkuð undir þeim tíma, eða ríflega fjögur ár. Hins vegar segir í sömu lagagrein: „Þegar fangi hefur verið samfellt í fjögur ár í fangelsi er heimilt að veita honum slíkt leyfi þótt þriðjungur refsitímans sé ekki liðinn.“
Miðað við þetta lagaákvæði er dagsleyfi Angjelins í samræmi við lög.