fbpx
Miðvikudagur 14.maí 2025
Fréttir

Tókst ekki að sanna dónaskap og virðingarleysi af hálfu Listaháskólans og fær ekki inngöngu

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 14. maí 2025 11:30

Listaháskóli Íslands við Kirkjusand

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur staðfest þá niðurstöðu Listaháskóla Íslands að synja umsókn konu um inngöngu í meistaranám við skólann. Fullyrti konan að í viðtali vegna umsóknarinnar hefði henni verið sýndur dónaskapur og virðingarleysi en nefndin segir að henni hafi ekki tekist að sanna það. Konan kærði einnig framgöngu skólans þegar kom að tímasetningu viðtalsins en nefndin segir að í því tilfelli hafi framganga skólans verið ámælisverð.

Konan sótti um inngöngu í námið í febrúar 2024 en það átti að hefjast á haustönn þetta sama ár. Um var að ræða meistaranám innan hönnunardeildar skólans og ber námið heiti á ensku „Design & New Environments“ og lýsing á því á heimasíðu skólans er alfarið á ensku.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að þegar sótt sé um inngöngu þurfi að skila inn ítarlegri umsókn og með henni þurfi meðal annars að fylgja mappa með verkum sem viðkomandi umsækjandi hefur unnið. Inntökunefnd fari yfir umsóknir og taki síðan viðtöl við þá umsækjendur sem taldir séu koma til greina.

Tímasetningar

Í maí, þremur mánuðum, eftir að hún lagði umsókn sína fram var konan boðuð í viðtal með inntökunefndinni, með tölvupósti, án þess þó að nánari tímasetning væri tilgreind. Fullyrt var í tölvupósti til konunnar að hún hefði fengið sent fundarboð á Microsoft Teams en svo reyndist ekki vera. Konan sendi strax tölvupóst til baka og bað um að gefin yrði upp nákvæm tímasetning, sendi hún ítrekun degi síðar og aðra ítrekun tveimur dögum eftir það. Tveir dagar liðu til viðbótar þar til konan fékk fundarboð á Teams í viðtal klukkan 12 daginn eftir og átti það að standa í 10 mínútur. Svo fór að viðtalið hófst ekki fyrr en 5 mínútum eftir uppgefinn tíma en fór að sögn eitthvað fram yfir hin fyrir fram ákveðnu lok þess.

Konan var afar ósátt við þetta og sagði í sinni kæru, þar sem hún krafðist þess að synjunin á umsókn hennar yrði felld úr gildi, að með þessum aðdraganda viðtalsins hefði verið brotið á rétti hennar. Henni hafi verið ómögulegt að undirbúa sig fyrir viðtalið þar sem ekki hafi legið fyrir hvenær það yrði haldið og að sá frestur sem henni hafi verið gefinn til undirbúnings hafi verið innan við sólarhringur frá því að tímasetningin varð henni ljós. Þá sagði hún framkvæmd viðtalsins hafa verið með þeim hætti að henni hafi verið gert ómögulegt að kynna sig og verk sín með fullnægjandi hætti þar sem fundurinn hafi bæði hafist síðar en gert var ráð fyrir og að fundartími hefði verið styttri en ráðgert hafi verið.

Móðgun og lítilsvirðing

Konan bætti því síðan við í kærunni að henni hefði verið sýnd lítillækkandi framkoma af hálfu þeirra sem tóku viðtalið. Hennar upplifun hafi verið sú að gert hefði verið lítið úr bæði henni og verkum hennar og hefði það birst í áhugaleysi og látbragði þeirra sem tóku viðtalið. Þá taldi konan inntökunefndina ekki hafa kynnt sér fyrri verk hennar sem tilgreind voru í umsókninni.

Sagði konan að möguleikar hennar til að nýta viðtalið til að kynna sig og verk sín ásamt því að sýna fram á hvernig fyrri reynsla hennar gæti nýst í náminu, hefðu að engu orðið. Gæti Listaháskólinn af þeim sökum ekki byggt á viðtalinu við ákvarðanatöku um hvort hún fengi inngöngu í námið eða ekki.

Kröfur

Listaháskólinn vildi meina í sínum andsvörum að inntökuskilyrði og fyrirkomulag inntökuferla í umrætt nám séu að öllu leyti í samræmi við lög um háskóla og fyrirkomulagið hafi legið skýrt fyrir á heimasíðu skólans. Fullyrti skólinn að fyllsta jafnræðis hefði verið gætt í öllu ferlinu.

Skólinn viðurkenndi hins vegar að vegna mistaka hefði dregist að senda konunni fundarboð. Þau mistök hafi aftur á móti hvorki haft áhrif á mat umsókna né niðurstöðu inntökunefndar þar sem áður hafði verið lagt mat á umsókn konunnar og fylgigögn auk þess sem viðtalið hafi farið fram. Fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir á vefsíðu skólans varðandi inntökuferlið og allir umsækjendur hafi setið þar við sama borð.

Tafir sem urðu á viðtalinu hafi ekki haft nein áhrif á niðurstöður nefnarinnar.

Skólinn hafnaði síðan alfarið fullyrðingum konunnar um virðingarleysi og dónalega framkomu inntökunefndarinnar í hennar garð í viðtalinu. Þvert á móti hafi henni verið sýnd virðing og kurteisi eins og öðrum umsækjendum. Sömuleiðis var fullyrðingum hennar um að nefndin hefði augljóslega ekki kynnt sér verk hennar fyrir viðtalið vísað á bug. Þvert á móti hefði það verið forsenda þess að henni hefði verið boðið í viðtal enda hefði aðeins hluti umsækjenda fengið slíkt boð. Konan hafi fengið jafnlangan tíma í sínu viðtali og aðrir umsækjendur sem komust svo langt og fengið sama tækifæri til að kynna sig og svara spurningum nefndarinnar.

Ámælisvert – Ósannað

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema segir í niðurstöðu um kæru konunnar að það sé ámælisvert af Listaháskólanum að hafa ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum hennar um að fundarboð hefði ekki borist fyrr en degi fyrir viðtalið. Þrátt fyrir það verði þó ekki séð að það hafi haft áhrif á getu eða möguleika konunnar að undirbúa sig fyrir viðtalið. Vísar nefndin til þess að allar upplýsingar um fyrirkomulag viðtalsins hafi legið fyrir á vefsíðu skólans.

Nefndin tekur undir það með Listaháskólanum að þótt upphafi viðtalsins hafi seinkað um fimm mínútur sé ekkert sem bendi til annars en að konan hafi fengið jafn langan tíma og aðrir umsækjendur sem boðaðir hafi verið í viðtal. Því hafi fyllsta jafnræðis verið gætt í þeim efnum.

Þegar kemur að fullyrðingum konunnar um lítillækkandi framkomu í hennar garð í viðtalinu og augljóst áhugaleysi inntökunefndarinnar á henni og hennar verkum þá segir áfrýjunarnefndin að engin gögn hafi verið lögð fram til að sanna það og í ljósi mótmæla Listaháskólans sé ekki hægt að fallast á þetta.

Loks tekur áfrýjunarnefndin undir það með Listaháskólanum að ekki sé hægt að fallast á það með konunni að inntökunefndin hafi ekki kynnt sér umsókn og fyrri verk hennar.

Kröfu konunnar um að ákvörðun Listaháskólans, um að hafna umsókn hennar, yrði felld úr gildi var því hafnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Trump vill bæta við 20.000 lögreglumönnum til að flytja fólk úr landi

Trump vill bæta við 20.000 lögreglumönnum til að flytja fólk úr landi
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stór skjálfti við Grímsey í morgun – Fannst víða í byggð á Norðurlandi

Stór skjálfti við Grímsey í morgun – Fannst víða í byggð á Norðurlandi
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar

Geymdi dauðan frænda sinn bílskúrnum í fimm ár – Keypti eðlur fyrir bæturnar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

HR sendi nemanda með prófkvíða í tvö sjúkrapróf sama daginn

HR sendi nemanda með prófkvíða í tvö sjúkrapróf sama daginn
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Grunaður um líkamsárás á reiðhjólaþjóf

Grunaður um líkamsárás á reiðhjólaþjóf
Fréttir
Í gær

Unglingar hrella íbúa á Völlunum og taka það upp fyrir samfélagsmiðla – „Koma að húsinu mínu og slamma á útidyrahurðina með miklu afli“

Unglingar hrella íbúa á Völlunum og taka það upp fyrir samfélagsmiðla – „Koma að húsinu mínu og slamma á útidyrahurðina með miklu afli“
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir stjórnvöld og sakar um mannvonsku – „Leggja líf ungs fólks í hættu vegna þess að þeim líkar ekki við fyrirtækið sem bjargar þeim“

Gagnrýnir stjórnvöld og sakar um mannvonsku – „Leggja líf ungs fólks í hættu vegna þess að þeim líkar ekki við fyrirtækið sem bjargar þeim“