Sigurbjörg Jónsdóttir, sem borin var út úr húsnæði í eigu Félagsbústaða við Bríetartún vegna vangoldinnar leigu, er enn heimilislaus.
„Gatan“ er svar hennar þegar hún er spurð hvar hún gisti núna.
Eins og DV greindi frá fyrir skömmu aumkvaði gömul vinkona Sigurbjargar sig yfir hana í síðustu viku og greiddi fyrir hana þrjár nætur á gistiheimili í Skipholti.
Hún hefur hins vegar verið á götunni síðan á laugardag.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, forseti borgarstjórnar, sagði í viðtali við Stöð 2 á þriðjudagskvöld í síðustu viku að velferðarsvið Reykjavíkurborgar væri að vinna í máli Sigurbjargar og myndi bjóða henni aðstoð.
Þetta hefur ekki gengið eftir ennþá. DV sendi Sönnu fyrirspurn í dag og spurði hana hvernig þetta mál stæði. Svör Sönnu verða birt þegar og ef þau berast.