fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
Fréttir

Sólveig Anna lætur „megins-straums femínista“ heyra það – Vinsælt áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 11. maí 2025 11:35

Sólveig Anna Jónsdóttir, DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á þessum mæðradegi óska ég mér þess að við getum sameinast í að hefja viðskilnað okkar við ofríki, oflæti og „stétt með stétt“ nálgun megin-straums femínismans og hafið á ný samband við innihaldsríka og stéttamiðaða kvennabaráttu.“

Á þessum orðum hefst pistill Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem hún birtir í tilefni mæðrdagasins.

Þar tekur hún upp hanskann fyrir verkakonur landsins sem hún segir að megins-straums femínisminn geti lítið hjálpað og sé fyrst og fremst áhugamál kvenna sem hafi náð jafnrétti, í víðtækum skilningi, á við karla.

„Verkakonan græðir ekkert á eða með helstu tólum megin-straums femínismans; sjálfsritskoðun, hugmyndafræðileg kúgun, útilokun, þöggun – þetta eru allt tól þeirra sem að hafa of mikinn tíma og of lítið af raunverulegum veraldlegum vandamálum. Verkakonan á hvorugt: Tími hennar fer í að reyna að leysa þau veraldlegu vandamál sem arðránið skapar í lífi hennar – ekki að velta sér upp úr því hvort að „trad-wives“ hafi það svona eða hinsegin. Verkakonan er í raun eina raunverulega trad-wife samfélagsins; vinnuafl hennar fer í að þrífa, gæta barna og aldraðra; hún er kúguð trad-wife arðræningja og opinberrar yfirstéttar. En sömu manneskjur og hafa áhyggjur af vandamáli sem er ekki vandamál hafa ekki áhuga á raunverulegum vandamálum verkakvenna. Fyrir þau sem halda að dyggðaskreytingar séu það sama og barátta er alltaf betra að einblína á ímyndanir. Þær eru hvergi og allstaðar; eins sem gera þarf er að segjast vera betri en aðrir til að vinna mikinn persónulegan sigur í hinni ímynduðu baráttu. Þessvegna er megin-straums femínisminn vinsælasta áhugamál kvenna sem þegar hafa náð fullu lagalegu, valdalegu, stofnanalegu og efnahagslegu jafnrétti á við karla,“ skrifar Sólveig Anna.

Segir hún að verkakonan græði ekkert á „stöðugum upphrópunum vanstillts fólks um kvenfyrirlitningu hér og gagnkynhneigða yfirráðahyggju þar.“

„Hún græðir ekkert á sjálfsupphafningu og ranghugmyndum fólks sem að misst hefur alla jarðtengingu, um að Feðraveldið kúgi allrar konur jafnt. Líf hennar er bið frá einum mánaðarmótum til þeirra næstu – síðustu dagar mánaðarins snúast um hvort hún hafi efni á að kaupa bæði dömubindi og íbúfen, ekki um hver hafi unnið fórnarlambs-keppni internetsins þá vikuna.

Eitt sinn var kvenréttindabaráttan að miklu leiti fókuseruð á að betri veröld fyrir konur væri betri veröld fyrir alla – að efnahagslegur jöfnuður væri leiðin fram á við. En megin-straums femínisminn hefur engan áhuga á slíku. Eini jöfnuðurinn sem hann berst fyrir er jafnrétti konunnar sem er forstjóri eða konunnar sem er ráðherra eða borgarstjóri til að geta haldið því fram að hún sé hafi það í raun jafn slæmt og ræstingakonan. Það sést m.a. á því að stærstu sambönd vinnandi fólks á Íslandi sjá ekkert athugavert við að taka saman höndum með forhertustu kapítalistum landsins í baráttu við eitthvað sem enginn í raun veit hvað er, í nafni femínismans. Í dag berjumst við gegn Hæstarétt Bandaríkjanna, á morgun fyrir því að kona hringi bjöllu íslensku kauphallarinnar, hinn daginn fyrir því að allrar stofnanir haldi kynjað bókhald, eftir viku því að allir segi öll. Svo berjumst við gegn þeim sem dirfast að benda á sjúkar þversagnirnar og yfirgengilega yfirborðsmennskuna sem fólgin er í því að vel settar og valdamiklar konur láti allt snúst um sig og kalli það róttæka baráttu – megin-straums femínisminn hefur því sem næst fullkomnað aðferðir sínar við að útiloka og smána þau sem ekki marsera í takt við skipanirnar,“ skrifar Sólveig Anna.

Að hennar mati er megin-straums femínisminn trickle-down hugmyndafræði.

„Valdakonur koma saman og ákveða að mynda tengslanet og hjálpa hvor annari við að komast áfram upp metorðastigann og brjóta glerþök. Verkakonan heldur áfram að reyna að fóta sig á glerhálu gólfi arðránskerfisins – hún á að gera sér að góðu brauðmola meðlima fagmenntastéttanna sem þeir láta náðarsamlegast detta á glergólfið stöku sinnum, í formi yfirlýsinga um að „innflytjendakonur séu líka konur“ eða „fokk feðraveldið“ eða álíka speki,“ skrifar Sólveig Anna.

Hún voni af öllu sínu kvenhjarta að þjóðin komist brátt áfram í raunverulegri kven-réttlætisbaráttu enda haldi verkakonan dauðþreytt samfélaginu uppi með endalausri vinnu.

„Engin kona velur að vera arðrænd. Þessvegna á megin-straums femínisminn ekkert svar eða bjargráð fyrir verkakonuna – hann lætur eins og allt snúist um val og frelsi til að velja – undir hans umsjón hefur nálgunin „hið persónulega er pólitískt“ úrkynjast endanlega. En eitt snýst sannarlega um val og frelsi til að velja og það er hvar við ætlum að berjast og við hverja. Ætlum við að berjast við illan anda Feðraveldisins með því að leyfa ofríkis-fólki að skemmta sér við að regluvæða líf okkar að öllu leiti og útskúfa rang-hugsurum, eða ætlum við að standa saman í raunverulegri stéttabaráttu, raunverulegri baráttu fyrir raunverulegu frelsi verkvenna og barna þeirra?
Ég veit hvað ég æta að gera og ég held þið viljið mörg gera það líka,“ skrifar Sólveig Anna.

Hér má lesa pistil hennar í heild sinni:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fabregas eða Ten Hag?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi

Ný verslun Ormsson og HTH opnar á Norðurtorgi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“

Sýður á eldri borgurum við Herjólfsgötu vegna saunahúss – „Við viljum að þetta fari“