Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hjólar í Valdimar Leó Friðriksson frambjóðanda til forseta ÍSÍ og íþróttafréttamann RÚV fyrir að spyrja hann ekki um aðkomu hans að Virðingu.
„Það var heillandi að hlusta á viðtal íþróttadeildar RÚV í gærkvöldi við Valdimar Leó Friðriksson, frambjóðanda til forseta Íþróttasambands Íslands. Viðtalið var þó ekki áhugaverðast vegna þess sem þar kom fram, heldur vegna þess sem var ósagt látið,“ segir Sólveig Anna í færslu á samfélagsmiðlum í dag.
Valdimar Leó bauð sig fram til forseta sambandsins rétt áður en lokað var fyrir umsóknir. Valdimar Leó er stjórnarmaður í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ sem og fleiri íþróttafélög. Hann sat einnig á Alþingi um tíma en hefur komist í fréttir að undanförnu sem nýr framkvæmdastjóri stéttarfélagsins Virðingar, það er stéttarfélag veitingafólks sem Efling telur gervistéttarfélag búið til af atvinnurekendum.
„Það sem ekki kom fram er að Valdimar Leó er sem stendur undir formlegri rannsókn Samkeppniseftirlitsins vegna gruns um brot á lögum. Valdimar Leó lét nefnilega í byrjun árs ráða sig í vinnu sem framkvæmdastjóra gervistéttarfélagsins „Virðing“,“ segir Sólveig Anna í færslunni. „Félagið var stofnað af atvinnurekendum til að blekkja og kúga aðflutt verkafólk og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði; blekkja þau og kúga til að taka laun undir lögbundnum lágmarkskjörum og gera þeim ómögulegt að verja réttindi sín með aðstoð raunverulegs stéttarfélags.“
Auk þess að hjóla í Valdimar Leó sendir hún íþróttafréttamanni RÚV pillu. Það er vegna þess að Valdimar Leó hafi ekki verið spurður um aðkomu sína að téðu félagi.
„íþróttafréttamaðurinn sem annaðist viðtalið í gærkvöldi sá ekki ástæðu til að spyrja Valdimar Leó um þetta, en þess í stað var rakið í talsverðum smáatriðum ýmislegt sem Valdimar Leó hefur brallað í fortíðinni. Þar var misst af dýrmætu tækifæri, því óneitanlega kemur upp sú áleitna spurning hvernig maður með þessa áhugaverðu lífssýn myndi pluma sig í starfi sem æðsti yfirmaður íslensku íþróttahreyfingarinnar,“ segir hún.
Nefnir hún að hægt hefði verið að spyrja Valdimar Leó hvort hann sæi fyrir sér að starfsfólk skrifstofu ÍSÍ verði skráð í gervistéttarfélög til að hægt væri að greiða þeim lægri laun og þar með bæta rekstrarafkomu ÍSÍ. Eða þá starfsfólk einstakra íþróttafélaga eða ræstingafólk og iðnaðarmenn sem komi að þrifum og viðhaldi íþróttamannvirkja.
„Fyrst að hugarflugið er komið af stað þá má jafnvel velta fyrir sér hvernig hugarfar og siðferði Valdimars Leó rímar við almenn grunngildi íþróttamennskunnar,“ segir Sólveig Anna. „Gæti Valdimar Leó hugsað sér að stofna gervi-íþróttalið utan ÍSÍ sem að myndu etja kappi við landslið og félagslið innan ÍSÍ, þannig að hagfelld úrslit verði tryggð fyrir fram? Væri þetta ekki áhugaverð leið til að auka hróður íslenskra íþróttaliða?“