fbpx
Fimmtudagur 31.júlí 2025
Fréttir

Hryllingur á hjúkrunarheimili – Starfsmaður réðst á vistmann

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 10. apríl 2025 16:30

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt konu fyrir líkamsárás með því að hafa í starfi sínu á ónefndu hjúkrunarheimili ráðist á konu sem var vistmaður á heimilinu og slegið hana í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut mar við auga.

Starfsmaðurinn neitaði sök í málinu. Í dómnum kemur fram að það voru mannauðsstjóri og mannauðsráðgjafi hjá hjúkrunarheimilinu sem tilkynntu lögreglu um atvikið í mars 2023. Sögðu tilkynnendur að atvikið hefði átt sér stað viku fyrr. Það hefði gerst með þeim hætti að við vaktaskipti hafi brotaþolinn verið óróleg og uppstökk. Starfsmanninum hafi fundist konan vera að áreita sig. Konan hafi ítrekað slegið til starfsmannsins og skyrpt að henni. Starfsmaðurinn hafi þá slegið til baka en beygt sig niður að konunni til að róa hana sem hafi þá klórað starfsmanninn í andlitið. Konan hafi einnig verið orðljót en talað ensku.

Starfsmaðurinn hafi þá keyrt hjólastól konunnar í átt að matsalnum og á leiðinni slegið hana í andlitið. Annar starfsmaður hafi orðið vitni að atvikinu og komið í veg fyrir frekara ofbeldi og tekið við konunni. Vaktstjóri hafi hins vegar ekki áttað sig strax á alvarleika málsins vegna þess erils sem einkenni vaktaskipti.

Framkvæmdastjóri lækninga á heimilinu var kallaður til tveimur dögum síðar og skoðaði konuna og gaf út áverkavottorð. Samkvæmt því var konan með kúlu á vinstra gagnauganu og hrufl á enni. Við nefið var merki um blæðingu undir húð. Fram kemur að af þessum áverkum liggi fyrir ljósmynd sem sé ódagsett.

Hrækt

Starfsmaðurinn neitaði sök við skýrslutöku hjá lögreglu og sagði konuna hafi komið að sér að fyrra bragði þar sem hún hafi setið á verönd heimilisins og hrækt í andlit hennar og slegið hana. Hún hafi þá ýtt konunni í hjólastól hennar fram á gang og skilið hana eftir þar. Hún sagðist ekki muna hvernig konan hefði slegið hana í andlitið.

Samstarfskona starfsmannsins sagðist við skýrslutöku hafa séð hana slá konuna í andlitið og sagði hana hafa slegið fast.

Konan gaf skýrslu hjá lögreglu. Hún sagðist eiga erfitt með að lýsa atvikum þar sem hún myndi þau ekki alveg. Sagði hún starfsmanninn hafa komið í herbergi hennar og slegið hana í andlitið með blautri tusku.

Konan gaf ekki skýrslu fyrir dómi þar sem að samkvæmt læknisvottorði var hún ekki fær um það vegna vitrænnar og líkamlegrar færniskerðingar.

Fyrir dómi endurtók starfsmaðurinn að hún hefði ekki slegið konuna. Starfsmaðurinn sagðist hafa verið í uppnámi þennan dag eftir erfitt símtal við móður sína. Konan hefði komið að henni og verið árásargjörn og hrækt að sér. Sagðist starfsmaðurinn þá hafa gengið burt og gæti ekki skýrt vitnisburð samstarfskonunnar um að hún hefði slegið konuna.

Vitnin

Samstarfskonan endurtók framburð sinn fyrir dómi um að hún hefði séð starfsmanninn slá konuna. Vaktstjóri sagði samstarfskonuna hafa sagt sér þetta og sagði að áverkar á konunni hefðu komið fram morguninn eftir. Framkvæmdastjóri hjúkrunar sagðist hafa rætt við starfsmanninn tveimur dögum eftir atvikið sem hefði þá viðurkennt að hafa slegið konuna.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að framburðir allra vitna hafi verið trúverðugir. Dómurinn segir það ljóst af áverkavottorðinu og ljósmyndinni af áverkum konunnar að mar við hægra auga og niður eftir nefi konunnar hafi komið eftir högg aftan frá eins og samstarfskona starfsmannsins hafði lýst högginu. Dómurinn fellst hins vegar ekki á að hrufl á enni konunnar hafi verið eftir höggið eins og fullyrt var í ákæru.

Konan var því sakfelld fyrir að hafa slegið konuna og valdið áverkunum við augað.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að konan hefur ekki áður brotið af sér en á móti að hún hefði ráðist á veikan skjólstæðing sem henni hafi verið treyst fyrir. Við hæfi þótti því að dæma hana í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Starfsmaðurinn þarf þar að auki að greiða konunni 450.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

„Þetta er samfélag sem byggir mann upp“

„Þetta er samfélag sem byggir mann upp“
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Segir að börnin á Gasa dreymi um að deyja

Segir að börnin á Gasa dreymi um að deyja
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kemur útlendingum til varnar og undrast eitt í umgengni íslenskra ferðamanna – „Missi daglega andlitið“

Kemur útlendingum til varnar og undrast eitt í umgengni íslenskra ferðamanna – „Missi daglega andlitið“
Fréttir
Í gær

Súlunesmálið: Margrét sögð hafa misþyrmt foreldrum sínum klukkustundum saman

Súlunesmálið: Margrét sögð hafa misþyrmt foreldrum sínum klukkustundum saman
Fréttir
Í gær

Arion banki mokgræðir – Hagnaðist um 16,2 milljarða á fyrri hluti ársins

Arion banki mokgræðir – Hagnaðist um 16,2 milljarða á fyrri hluti ársins
Fréttir
Í gær

Segir nýjasta tölublað Heimildarinnar vera rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu – „Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein“

Segir nýjasta tölublað Heimildarinnar vera rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu – „Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein“
Fréttir
Í gær

Afmarka svæði frá hraunjaðrinum – Getur brotist hratt fram

Afmarka svæði frá hraunjaðrinum – Getur brotist hratt fram
Fréttir
Í gær

Spyr hvers vegna þurfti að reka Verzlingana í burtu – „Kominn tími á að leyfa börnum og ungmennum að lifa lífinu“

Spyr hvers vegna þurfti að reka Verzlingana í burtu – „Kominn tími á að leyfa börnum og ungmennum að lifa lífinu“