Kona sem hlaut tveggja mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, í Landsrétti fyrir kynferðislega áreitni gagnvart einum pilti sem og að hafa brotið gegn blygðunarsemi hans og tveggja annarra pilta fær að áfrýja máli sínu til Hæstaréttar. Ástæðan er sú að konan var sýknuð af blygðunarsemishluta málsins í héraði og þar sem dómstigin voru ekki á sama máli varðandi niðurstöðuna þá mun Hæstiréttur taka málið fyrir.
Brotin áttu sér stað á Norðurlandi en drengirnir voru allir 17 ára gamlir þegar þau áttu sér stað. Piltarnir voru að skutla konunni eftir lokun skemmtistaðar í bifreið í desember 2022 en viðhafði hún þá við þá kynferðislegt og ósiðlegt tal auk þess sem hún fór með hendur sínar inn fyrir buxna- og nærbuxnadrengs eins drengsins.
Að sögn piltanna bauðst konan til þess að borga fyrir skutlið með því að veita þeim munnmök. Neitaði konan því fyrir dómi en viðurkenndi að hafa tjáð drengjunum að á tilteknum stað, þar sem þau voru á ferð, hefði hún fyrir mörgum árum veitt strák munnmök í bíl.
Framburður piltanna var hins vegar sagður stöðugur og trúverðugur. Þá báru foreldrar þeirra vitni og sögðu frá áhrifum þessa kvölds á drengina.
Auk þess að vera gerð tveggja mánaða skilorðsbundin refsing þurfti konan að greiða samtals 2,4 milljónir í sakarkostnað á báðum dómstigum og greiða piltinum, sem hún áreitti, 200 þúsund krónur í bætur.