fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
Fréttir

Fær ekki hærri bætur eftir að hafa verið bendluð við átök bræðra

Ritstjórn DV
Mánudaginn 10. febrúar 2025 16:30

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: Maggi gnúsari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað því að bótagreiðslur ríkisins til konu sem var bendluð við líkamsárás verði hækkaðar. Málið var fellt niður en sá sem fyrir árásinni varð kenndi sínum eigin bróður um hana.

Konan krafðist 1.500.000 króna, auk vaxta og dráttarvaxta, í miskabætur vegna aðgerða lögreglu í hennar garð.

Málið má rekja til ársins 2020. Þá barst rétt eftir miðnætti tilkynning um alvarlega líkamsárás í húsi í Reykjavík. Á vettvangi var brotaþolinn, karlmaður, með mikla áverka á höfði. Sagðist hann telja bróður sinn eiga hlut að máli. Gler að útidyrahurð íbúðarinnar var brotið og blóð víða á gólfinu í forstofu og á gangi í íbúðinni. Skaft af hnífi fannst á stétt fyrir utan íbúðina en hnífsblaðið fannst í forstofunni. Sambýliskona brotaþolans sagði 3 til 5 einstaklinga hafa verið að verki. Strákar og ein stelpa. Þau hefðu verið hettuklædd með klúta fyrir andlitunum.

Þessa sömu nótt voru síðan þrír einstaklingar handteknir í bílakjallara í Kópavogi. Bróðir brotaþolans, konan og félagi þeirra. Leitað var í bifreiðinni sem þau voru á og fundust þar vasahnífar, verkfæri sem talið var að hefðu verið notuð við árásina, sóttvarnargrímur og tveir farsímar.

Rætt var við bróðurinn sem sagði brotaþolann hafa hótað sér. Viðurkenndi hann að hafa ekið að heimili bróður síns ásamt konunni og þremur félögum þeirra. Þau hafi farið út úr bifreiðinni en hann beðið eftir þeim og ekið svo á brott þegar þau hafi komið aftur.

Neitaði öllu

Konan var handtekin og vistuð í fangaklefa þar til skýrsla var tekin af henni um klukkan 13 daginn eftir. Neitaði hún að hafa tekið þátt í árásinni og að hafa verið viðstödd hana. Hald var lagt á farsíma hennar en hún neitaði að veita lögreglu heimild til að rannsaka innihaldið.

Lögreglan fékk leyfi með dómsúrskurði til að rannsaka innihald síma konunnar. Gögn í síma hennar vörpuðu ekki ljósi á málsatvik og símanum var skilað til hennar.

Í maí 2023 voru rannsóknargögn málsins afhent héraðssaksóknara til meðferðar en í júlí 2023 var konunni tilkynnt að rannsókn málsins hefði verið hætt.

Konan krafðist í kjölfarið bóta en viðræður í málinu báru ekki árangur og því kom það til kasta dómstóla.

Óþarfi

Konan sagði eina og hálfa milljón króna vera hæfilegar miskabætur þar sem ekkert hafi réttlætt aðgerðir lögreglu. Hún hafi verið handtekin að tilefnislausu og lögreglan hafi farið offari. Þar að auki hafi málsmeðferðin verið óhóflega löng. Þetta allt hafi valdið henni miska.

Í máli ríkisins kom fram að í samræmi við lög um meðferð sakamála hafi verið fallist á að konan ætti rétt á bótum vegna handtökunnar og rannsóknar á innihaldi farsíma hennar. Bótakrafa hennar hafi hins vegar verið of há og ekki í samræmi við fyrri dóma í sambærilegum málum. Ríkið sagði fullt tilefni hafa verið til þeirra aðgerða sem gripið var og rökstuddur grunur hafi verið um að konan hefði átt þátt í árásinni. Annar aðili sem grunaður var um aðild að málinu hafi sagt hana hafa verið á vettvangi. Vitni hefðu sagt konu, klædda í hettupeysu með klút fyrir andliti, hafa verið á vettvangi og konan hafi verið þannig klædd þegar hún var handtekin. Þar að auki hafi blóð verið á annarri hönd hennar.

Með vísan til þessa fellst Héraðsdómur Reykjavíkur ekki á þær fullyrðingar konunnar að hún hafi verið handtekin að tilefnislausu. Gætt hafi verið meðalhófs og konunni ekki haldið lengur en þörf hafi verið á. Konan hafi ekki fært rök fyrir því að miski hennar samsvari þeirri upphæð sem hún hafi krafist. Ríkið hafi boðið henni 400.000 krónur og sú upphæð sé hæfileg.

Konunni voru því dæmdar 400.000 krónur í miskabætur, en ekki 1.500.000 eins og hún krafðist, auk vaxta og dráttarvaxta.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Blaðamaður Morgunblaðsins ósáttur við viðbrögð við morðinu á Kirk – Einn sagði við Snorra Másson að hann væri næstur

Blaðamaður Morgunblaðsins ósáttur við viðbrögð við morðinu á Kirk – Einn sagði við Snorra Másson að hann væri næstur
Fréttir
Í gær

Þetta vitum við um hinn handtekna – 22 ára og heitir Tyler Robinson

Þetta vitum við um hinn handtekna – 22 ára og heitir Tyler Robinson
Fréttir
Í gær

Nýbýlavegsmálið: Móðir sem dæmd var í 18 ára fangelsi fær að áfrýja til Hæstaréttar

Nýbýlavegsmálið: Móðir sem dæmd var í 18 ára fangelsi fær að áfrýja til Hæstaréttar
Fréttir
Í gær

Sýknaður af ákæru um líkamsárás eftir slagsmál á Þjóðhátíð í Eyjum – Sögðust hafa séð tvo menn koma út úr tjaldinu þeirra

Sýknaður af ákæru um líkamsárás eftir slagsmál á Þjóðhátíð í Eyjum – Sögðust hafa séð tvo menn koma út úr tjaldinu þeirra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gífurleg heift á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi – „Ásakanir minnihlutans á hendur starfsmönnum um vísvitandi útúrsnúning eru ómaklegar og óásættanlegar“

Gífurleg heift á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi – „Ásakanir minnihlutans á hendur starfsmönnum um vísvitandi útúrsnúning eru ómaklegar og óásættanlegar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan á Suðurnesjum fór ekki að lögum í máli bandarískrar konu

Lögreglan á Suðurnesjum fór ekki að lögum í máli bandarískrar konu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja það geta verið lífshættulegt að hafa Konukot í Ármúla 34

Segja það geta verið lífshættulegt að hafa Konukot í Ármúla 34
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reykjavíkurborg fær ekki að áfrýja máli til Hæstaréttar – Kona sem datt í sundlaug vann

Reykjavíkurborg fær ekki að áfrýja máli til Hæstaréttar – Kona sem datt í sundlaug vann