fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

„Enginn vinnur lengri vinnudag en listamenn sem sinna köllun sinni af krafti“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 20. mars 2024 09:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjóðþekktir rithöfundar eru í hópi þeirra sem skrifað hafa umsögn við frumvarpsdrög um breytingu á lögum um listamannalaun, en drögin hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Markmið frumvarpsins eru að tryggja betur afkomu þeirra sem starfa í lostum eða við skapandi greinar en fjöldi starfslauna hefur haldist óbreyttur í 15 ár, eða frá því að gildandi lög tóku gildi árið 2009.

Breytingar í frumvarpinu fela í sér fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða. Starfslaunamánuðum yrði fjölgað úr 1.600 í 2.850 á 4 árum. Kostnaður við listamannalaunin í dag eru 978 milljónir en verður 1.678 milljónir þegar fullri hækkun verður náð.

Viljum ekki vera fiskistöð og ferðamannanýlenda

Hallgrímur Helgason er meðal þeirra sem skrifa umsögn við frumvarpsdrögin.

„Ísland vill ekki verða hreinræktuð fiskistöð og ferðamannanýlenda sem skapar ekkert sjálft og leggur ekkert til heimsmenningarinnar, land sem rúllar bara kúltúrlaust áfram á máltíðum, bílakaupum og enska boltanum. Við viljum skilja eitthvað eftir okkur. Að lokinni misheppnaðri útrás og köflóttu gengi í íþróttum hefur á liðnum árum myndast hér sá sannleikur að Ísland fer lengst á listinni,“ segir hann og nefnir Íslendinga sem hafa gert það gott erlendis; Laufeyju Lín, Daða Frey, Víking Heiðar, Rán Flygenring, Benedikt Erlingsson, Ragnar Jónasson og Hildi Guðnadóttur þar á meðal.

Bendir hann jafnframt á að í janúarmánuði síðastliðnum hafi komið út tíu íslenskar skáldsögur í Frakklandi. „Atgangurinn var svo mikill að frönsku blöðin töluðu um íslenska bylgju. Má Ísland ekki vera stolt af því?“

List er ekki áhugamál

Hallgrímur segir að þessir toppar séu þó ekki allt sem skiptir máli.

„Akurinn verður að vera breiður og blómlegur, hinn svokallaði lággróður verður líka að vera til staðar. Sérhver bók sem skrifuð er skiptir máli, barnabækur ekki síst. Ef ein þeirra nær að fanga ungan huga sem býr við bága æsku í blokk í Kórahverfi er það líka afrek sem skiptir máli. Eitt lítið lag með snjöllum texta getur leyst heilan listferil úr læðingi. Við verðum að hugsa menninguna á léréttan hátt líka, ekki aðeins lóðréttan.“

Hallgrímur segir í umsögn sinni að svona lagað gerist ekki af sjálfu sér.

„Svonalagað sprettur úr farvegi sem búinn er til, sem ríkið fjármagnar. List er ekki áhugamál. Slíkt er algengur misskilningur. Þetta er ekkert hobbý. Og hobbývinnubrögð duga aldrei til. „Aldrei hefur verið saman svo ómerkileg bók, að hún hafi ekki kostað meira andlegt erfiði en stjórn heillar togaraútgerðar í tíu ár“ sagði Þórbergur Þórðarson. Enginn skrifar skáldsögu án þess að sitja við átta tíma á dag í tvö ár hið minnsta, segi ég,“ segir Hallgrímur og heldur áfram:

„Enginn leggur harðar að sér og enginn vinnur lengri vinnudag en listamenn sem sinna köllun sinni af krafti. Jafn lítið land og Ísland getur hinsvegar aldrei haldið uppi markaði fyrir list, sem listamenn okkar geta lifað á. Ríkið verður að grípa inn. Starfslaun listamanna eru rótgróin og margsönnuð aðferð til að halda uppi öflugu listalífi í einu landi. Samkeppnin um þau er alltaf hörð, fólk þarf að sýna fram á árangur og markmið. Að hljóta slík laun er því alltaf heiður.“

Hvað kosta Íslendingasögurnar? En þjóðsöngurinn?

Hallgrímur segir svo að þegar sagt er frá þessum veruleika íslenskra listamanna rati slíkt einatt í fyrirsagnir.

„Ríkið ræður okkur í vinnu við að skrifa bækur, mála myndir, hugsa innsetningar, semja tónverk, skapa danssýningar, skrifa kvikmyndir. Höfuð munurinn á þeirri vinnu og öðrum störfum á vegum ríkisins, svosem hjúkrun og kennslu, er að listafólkið þarf að sækja aftur um hana á hverju ári. Að öðru leyti er þetta bara eins og hver önnur vinna. Bestu samfélögin leyfa öllum sínum þegnum að blómstra samkvæmt styrk þeirra og hæfileikum.“

Hallgrímur bendir á að nú starfi 4% landsmanna í skapandi geiranum, 1% fleiri en í sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn skapi hærri útflutningstekjur en sá fyrrnefndi skapi hin menningarlegu verðmæti sem aldrei verða metin til fjár.

„Eða hvað kosta Íslendingasögurnar? Hvað kosta portrettin sem Kjarval gerði ungur af bændum á Borgarfirði eystra? Hvað kostar þjóðsöngurinn eða kraftaverkið mikla Heyr himna smiður? Allt eru þetta menningarafurðir sem fáir geta hugsað sér að vera án. Samt sem áður verður heildartalan yfir starfslaunaútgjöld ríkisins aldrei meira en í kringum einn milljarð. Af öllum þeim milljarðatugum sem rúlla í fréttatímum daganna — sem bankarnir skila í arð, sem útgerðin græðir, sem ríkið tapaði á röngum ákvörðunum gærdagsins — erum við bara að tala um einn lítinn milljarð í menningu og listir, fjárhæð sem bæði skilar sér margfalt til baka í ríkulegra samfélagi og verðmætum sem engar upphæðir ná utan um.“

Hallgrímur bendir svo á að aðaltekjulind Parísarborgar í dag sé lítið málverk, 77 sentímetrar á hæð og 53 sentímetrar á breidd, sem franski kóngurinn keypti árið 2017 fyrir 200 þúsund krónur íslenskar að núvirði. Hann hafði vit á því að selja það ekki aftur.

„Við listamenn fögnum þessu frumvarpi menningarráðherra. Hér er starfslaunamánuðum fjölgað og stofnaðir þrír nýir sjóðir. Nú þegar hin nýja tækni streymis og gervigreindar virðist ætla að ryðja burt mörgum af þeim tekjumöguleikum sem listamenn höfðu þó, ber að hlúa enn betur að ungum sem öldnum sköpurum í myndlist, tónlist, ritlist, leiklist og kvikmyndum. Þetta nýja frumvarp er greinilega liður í því.“

Hér má lesa þær umsagnir sem komnar eru. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum