fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Dæmdur fyrir hótanir eftir tveggja ára áreitni

Ritstjórn DV
Mánudaginn 18. mars 2024 15:30

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður var fyrir helgi sakfelldur í Landsrétti fyrir hótanir í garð konu en konan segir að fram að því hafi maðurinn áreitt hana reglulega í tæp tvö ár. Staðfesti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

Dómur héraðsdóms, sem féll í mars 2023, er birtur með dómi Landsréttar. Þar kemur fram að sumarið 2020 hafi maðurinn hringt í konuna og hótað að rústa henni og fjölskyldu hennar. Óttaðist konan um líf sitt í kjölfarið.

Konan lagði fram kæru á hendur manninum samdægurs og sagði þá að hún hefði reglulega orðið fyrir áreiti af hálfu mannsins með símhringingum sem hefðu stigmagnast. Í símtalinu þennan dag hefði maðurinn tjáð henni að hann myndi ganga frá henni og stúta henni og fjölskyldu hennar þrátt fyrir að á heimili hennar væru öryggismyndavélar.

Þegar þarna var komið við sögu voru 2 ár liðin síðan maðurinn hafði fyrst samband við konuna vegna starfs hennar. Konan tjáði lögreglu að síðan hefði hann farið að hafa ítrekað samband við hana. Maðurinn hefði komið til hennar í viðtal en hún haft þá samstarfsmann með sér öryggis síns vegna. Maðurinn hefði á þessum tímapunkti verið farinn að hafa stöðugt samband við hana bæði á daginn og kvöldin.

Konan sagðist hafa haft stúdentaíbúðir til leigu og skyndilega hefði maðurinn orðið leigjandi þar en hefði þó yfirgefið íbúðina í góðu. Eftir það hefði maðurinn farið að hringja í hana úr fleiri símanúmerum. Konan sagði manninn einnig hafa hótað manni, þáverandi lögreglustjóra ónefnds lögregluembættis, sem hún þekkti og engu hefði breytt þótt, eftir hótunarsímtalið, eiginmaður konunnar hafi svarað þegar maðurinn hringdi í hana og krafist þess að hann myndi láta af hótunum sínum. Maðurinn hefði haldið áfram að hringja í hana og hún í kjölfarið lagt fram kæru.

Hlé eftir nálgunarbann

Maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart konunni, eftir að hún lagði fram kæruna, fram til janúar 2021. Á meðan nálgunarbanninu stóð lét maðurinn konuna í friði en eftir að nálgunarbannið rann út gaf konan skýrslu hjá lögreglu og sagði manninn vera farinn að áreita sig á ný. Hún sagði hann hringja úr ýmsum símanúmerum og hefði sent henni tölvupóst. Mikið ónæði væri af þessu og hefði hún miklar áhyggjur.

Málið fór ekki fyrir héraðsdóm fyrr en í upphafi ársins 2023 og ekki kemur fram í dómnum hvort áreitni mannsins í garð konunnar hafi haldið áfram fram að því.

Fyrir dómi sagði maðurinn að hann hefði rætt við konuna fyrst vegna starfs hennar og að hann hefði talið tiltekinn starfsmann, á stað sem ekki er nefndur í dómnum, brjóta á sér. Hann sagði að konan hefði tjáð honum að hann mætti alltaf leita til hennar. Þegar kom að umræddu símtali sumarið 2020 sem varð tilefni kærunnar sagði maðurinn að hann hefði hringt í konuna vegna þess að hann hefði frétt að konan væri að spyrjast fyrir um hann og bera út að hann þekkti lögreglustjórann umrædda.

Sagðist maðurinn hafa spurt konuna hvort hún yrði sátt við að borin yrðu út ósannindi um hana. Hann sagðist ekki muna vel eftir símtalinu en fullyrti þó að hann hefði ekki hótað konunni. Maðurinn var ekki viss um ástand sitt þennan dag. Hann tæki þó stundum of mikið af lyfjum sem hann hefði fengið ávísað og við slík tækifæri hringdi hann of oft.

Fyrir dómi gerði konan nánari grein fyrir hótunarsímtalinu sumarið 2020 og sagði manninn hafa verið afar æstan og svo mikill hafi verið æsingurinn að hún hafi óttast það mjög að hann myndi gera alvöru úr hótunum sínum.

Átján símtöl á einum sólarhring – Hótaði fleirum

Eiginmaður konunnar bar vitni og sagði hana hafa sætt áreitni af hálfu mannsins í tvö ár þar til hún lagði fram kæruna. Sagði hann konu sína mest hafa fengið 18 símtöl frá manninum á einum sólarhring. Hótunarsímtalið hafi fengið afar mikið á konuna og hún orðið mun varari um sig en áður og gert auknar öryggisráðstafanir. Eiginmaðurinn sagði einnig að konan hefði sagt honum að maðurinn hefði talað í símtalinu illa um vin hjónanna, þáverandi lögreglustjóra.

Systir konunnar bar vitni fyrir dómi en hún var með henni þegar símtalið barst. Sagði hún eins og mágur sinn að símtalið hafi fengið mikið á systur sína og hún í kjölfarið orðið mun meðvitaðri um öryggi sitt. Systirin sagðist hafa óttast um sitt eigið öryggi þar sem maðurinn hefði hótað fjölskyldu konunnar og þar sem þær systur væru tvíburar væru þær líkar í útliti. Sagðist systirin í kjölfarið hafa fengið sér öryggiskerfi.

Umræddur fyrrum lögreglustjóri, vinur hjónanna, bar vitni í málinu. Hann sagði konuna hafa greint sér frá áreitni mannsins og verið í miklu uppnámi eftir símtalið sem leiddi að lokum til kærunnar. Lögreglustjórinn sagðist kannast við manninn og hafa fengið hótanir frá honum. Hann sagði manninn enn hringja í sig reglulega. Hann sagðist vita til þess að maðurinn hefði hótað fleirum og jafnvel gengið svo langt að skemma eigur þeirra. Slík mál hefðu komið inn á borð hans í starfi hans sem lögreglustjóri.

Lögmaður mannsins hélt því fram að umrædd hótun væri ekki nógu skýr til að teljast hótun í skilningi laga. Er það niðurstaða dómsins að stöðugur og trúverðugur framburður konunnar og vitna sanni að símtalið umrædda hefði falið í sér hótun og að einnig þurfi að líta til samskipta konunnar og mannsins í heild sinni.

Var því maðurinn sakfelldur og dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi og var sá dómur staðfestur í Landsrétti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar