Morgunblaðið greinir frá því í dag að erlend netárás hafi verið gerð á vefinn á fimmtudag í síðustu viku. Kristín Gestsdóttir, samskiptafulltrúi Sýnar, sem á og rekur Bland.is, segir við Morgunblaðið að einhverjir óprúttnir aðilar hafi fundið veikleika en búið sé að koma í veg fyrir vandann.
„Við virkjuðum viðbragðsáætlun okkar og öryggissérfræðingar okkar og frá Syndis gripu inn í,“ segir hún.
Á forsíðu Bland.is eru notendur beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þeir gætu hafa fundið fyrir síðustu daga.
„Sumir notendur fengu send fölsk tilboð í auglýsingar í þeim tilgangi að blekkja þá til að smella á hlekk og gefa upp kreditkortaupplýsingar. Við greiningu hjá okkar helstur öryggissérfræðingum kom í ljós að árásaraðilar höfðu fundið leið á síðunni til að senda tilboð til notenda án auðkenningar. Til að tryggja öryggi hefur auðkenning með rafrænum skilríkum verið tekin í notkun,“ segir í skilaboðunum.
Kristín segir að engar tilkynningar hafi borist um að notendur hafi hlotið fjárhagslegt tjón af árásinni.