Undanfarin kvöld hafa óþekktir skemmdarvargar herjað á leikskólann Ösp, við Iðufell í Breiðholti, og brotið þar rúður. Leikskólinn birti tilkynningu um þetta í íbúahópi á Facebook í gær, þar sem segir:
„Sorgarstaða í leikskólanum okkar!
Undanfarið hafa einhverjir komið á kvöldin og brotið rúður í leikskólanum Ösp, núna síðast í gærkveldi.
Við viljum biðja um hjálp ykkar.
Ef þið verðið vör við eitthvað þá endilega hafið samband við lögregluna eða stjórnendur í leikskólanum. Þetta er mjög alvarlegt mál sem veldur miklu tjóni í leikskólanum og er stórhættulegt börnunum okkar.
Með fyrirfram þökk
Stjórnendur í leikskólanum Ösp“
Hjördís Rut Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, ræddi málið stuttlega við DV. „Undanfarin kvöld hafa verið rúðubrot í leikskólanum, lögreglan er með málið til athugunar,“ segir hún.
Hjördís segir að það sé í vinnslu að efla öryggiskerfi við skólann. „Það á að auka við það því það er ekki nógu gott,“ segir Hjördís og bætir við að hún telji að lögregla taki þetta mál mjög alvarlega.
Hjördís segir að um nokkur tilvik undanfarin kvöld sé að ræða og hafi samtals sex rúður verið brotnar. Skemmdarverkin eigi sér alltaf stað að kvöldlagi.
DV hafði samband við Sigrúnu Kristínu Jónsdóttur, lögreglufulltrúa á lögreglustöð 3, sem nær yfir Breiðholt og Kópavog. Hún segir engar vísbendingar hafa borist í málinu. „Þetta er komið inn á borð til okkar. Það eru bara engar vísbendingar, það eru engar myndavélar eða neitt þarna. Við erum bara að skoða þetta,“ segir Sigrún.
Íbúar sem taka til máls í Facebook-hópnum um þetta mál eru harmi slegnir vegna þessara skemmdarverka. Ein kona segir:
„Ég skil ekki að fólk skuli látið sér detta í hug að vinna svona skemmdarverk þar sem lítil börn eru.“