Forsaga málsins er sú að Gunnar Smári gerði að umtalsefni þjóðmálakönnun ASÍ þar sem fólk var spurt hvort það teldi að íslenskt samfélag væri á réttri eða rangri leið þegar horft er til hagsmuna almennings.
Gunnar Smári sagði niðurstöðurnar rosalegar, en aðeins 17% landsmanna telja samfélagið vera á réttri leið og 69% telja það vera á rangri leið.
„Svona eru niðurstöðurnar þegar verst lætur í Bandaríkjunum, landi sem er á barmi uppbrots, jafnvel borgarastyrjaldar. Og ef við tækjum burt þau fáu sem enn vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn er niðurstaðan enn nöturlegri. Vonandi munu kjósendur nýta atkvæðarétt sinn 30. nóvember til að kjósa flokka sem boða raunverulegar grundvallarbreytingar á stjórnarstefnunni – ekki flokka sem boða breytingar en segjast jafnframt í raun ekki ætla að breyta neinu, aðeins setja plástra yfir daunill rotnandi sárin,“ sagði Gunnar Smári.
Þessi orð virðast hafa komið við kaunin á Hannesi Hólmsteini sem svaraði Gunnari Smára fullum hálsi.
„Þú skilur við allt í rúst, sem þú kemur nálægt. Allir fjölmiðlar, sem þú hefur stjórnað, hafa orðið gjaldþrota. Þér tókst að tapa því, sem myndi núna nema fimmtán milljörðum, fyrir Jón Ásgeir. Og síðan ætlar þú að kenna okkur að stjórna þjóðarbúinu. Ísland er ekki fullkomið, en hér eru hæstu laun í heimi, jafnasta tekjudreifingin, minnsta fátæktin, samkvæmt öllum alþjóðlegum samanburðarmælingum. Það er eitthvað sjúklegt við þessa baráttu þína,“ sagði Hannes.
Gunnar Smári lét þetta ekki yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust og svaraði í sömu mynt.
„Aumingjans karlinn, ljúgandi á daginn og grenjandi á kvöldin. Vansældin og beiskjan sest þar sem grobbið sat áður. Hruninn hrunmaður tuðar á hrauk sínum.“