fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Segir tvö ráðuneyti verða að leysa 23 ára gamla deilu sín á milli – „Ráðherra skuli leggja sig fram um að eiga gott samstarf við samráðherra“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 9. október 2024 17:30

Dómsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa deilt lengi um skattalega meðferð á greiðslum til fanga.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit vegna þeirrar framkvæmdar fangelsisyfivalda að undanskilja þóknun fanga fyrir vinnu í fangelsi staðgreiðslu skatta og greiðslu annarra launatengdra gjalda. Er það niðurstaða umboðsmanns að þetta sé ekki í samræmi við skattalög. Athygli vekur að í álitinu átelur umboðsmaður stjórnvöld, sérstaklega fjármálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið um að koma sér ekki saman um lausn á málinu en ráðuneytin tvö hafa verið á öndverðu meiði síðan 2001 um hvort meðhöndla eigi þessa greiðslur eins og hverjar aðrar skattskyldar tekjur. Fær forsætisráðherra einnig sinn skerf af gagnrýni fyrir að sinna ekki samhæfingarhlutverki sínu í málinu.

Upphaf afskipta umboðsmanns af málinu má rekja til þess að á síðasta ári leitaði hópur fanga til embættisins og kvartaði meðal annars yfir því að fjárhæð þóknananna væri of lág og að þeir ynnu sér ekki inn nein lífeyrisréttindi í sinni vinnu í fangelsunum.

Árið 2007 hafði umboðsmaður beint þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að færa greiðslur til fanga til samræmis við ákvæði skattalaga en í þessu nýja áliti kemur fram að lítið sem ekkert hafi verið gert í ráðuneytinu síðan þá til að bregðast við tilmælunum.

Ekki eins og hefðbundin laun

Dómsmálaráðuneytið tjáði umboðsmanni í svörum sínum við bréfi hans, vegna málsins, að það væri álit ráðuneytisins að þóknanir til fanga fælu ekki í sér hefðbundið endurgjald fyrir vinnu sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Það sé ekki um að ræða hefðbundið vinnuréttarsamband launþega og vinnuveitanda. Því sé eðlilegt að ekki sé um skattskyldar tekjur að ræða og að það hafi í raun verið vilji Alþingis þegar lög um fullnustu refsinga voru endurskoðuð 2016.

Fjármálaráðuneytið er hins vegar ekki sama sinnis og segir að afstaða þess í málinu frá því að umboðsmaður leitaði álits ráðuneytisins vegna málsins síðast, árið 2006, sé óbreytt. Það sé enn afstaða þess að greiðslur til fanga vegna vinnu í fangelsum landsins eigi að hljóta sömu meðferð hjá yfirvöldum og hverjar aðrar skattskyldar tekjur. Í svari ráðuneytisins kemur fram að það hafi deilt við dómsmálaráðuneytið vegna málsins allt frá 2001:

„Ráðuneytið vill taka fram að mál þetta er ekki nýtt af nálinni og má rekja það allt aftur til ársins 2001. Dómsmálaráðuneytinu og Fangelsismálastofnun á að vera fullkunn afstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem ávallt hefur í samskiptum sínum við dómsmálaráðuneytið látið þá skoðun sína í ljós að greiðslur til fanga fyrir að stunda vinnu eða nám teljast til skattskyldra launa sem greiða ber af tryggingagjald og iðgjald í lífeyrissjóð. Svo virðist sem á því hafi verið misbrestur. Meðhöndlun þessara tekna er ekki í neinu frábrugðin því sem gerist með launagreiðslur almennt.“

Ráðuneyti og ráðherra eigi að vinna saman

Umboðsmaður kemst að sömu niðurstöðu og fjármálaráðuneytið en átelur bæði ráðuneytin fyrir að vinna ekki betur saman að málinu. Hann segir að þótt stjórnarmálefnum sé skipt á milli ráðherra þá mæli stjórnarskráin fyrir um að þeir beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Hann minnir einnig á ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands sem kveði á um að ráðherrar skuli leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta sinna þegar málefni og málefnasvið skarast, eins og er raunin í þessu tilfelli þar sem málefni fanga heyra undir dómsmálaráðuneytið en skattamál undir fjármálaráðuneytið. Hann vísar einnig til skyldu forsætisráðherra í þessum efnum:

„Forsætisráðherra ber að gæta þess að verkaskipting innan Stjórnarráðsins í heild sé eins skýr og kostur er og stefna og aðgerðir ráðherra á einstökum sviðum séu samhæfðar ef á þarf að halda.“

Umboðsmaður minnir einnig á að embættið hafi áður vakið athygli á nauðsyn þess að ráðuneyti hafi samráð og samvinnu sín á milli um efni sem varða málefnasvið tveggja ráðuneyta eða fleiri.

Minnir umboðsmaður einnig á ákvæði siðareglna ráðherra um samvinnu þeirra á milli:

„Þar kemur fram að ráðherra skuli leggja sig fram um að eiga gott samstarf við samráðherra og tryggja viðeigandi samráð við þá um stjórnarmálefni.“

Segir umboðsmaður ljóst að ráðuneytin verði að leysa þennan ágreining sín á milli sem hafi staðið svo lengi og þá með atbeina forsætisráðuneytisins ef þörf krefur. Náist ekki lausn í málinu á milli ráðuneytanna segir umboðsmaður ekki annað blasa við en að lagt verði fram frumvarp á Alþingi til að færa greiðslur til fanga vegna vinnu í fangelsum til samræmis við ákvæði skattalaga. Hver eigi að leggja það frumvarp fram tekur umboðsmaður hins vegar ekki afstöðu til.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Gáði ekki að sér og sigldi á hafnarkantinn

Gáði ekki að sér og sigldi á hafnarkantinn
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna

Kiðjabergs- og Naustahverfismálin vekja furðu því meintir morðingjarnir eru ekki taldir sekir um manndráp – Jón Steinar útskýrir hvers vegna
Fréttir
Í gær

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV

Skarphéðinn stígur til hliðar sem dagskrárstjóri RÚV
Fréttir
Í gær

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum

Verslunarstjóri ákærður fyrir nauðgun á fötluðum undirmanni sínum og tveimur andlega fötluðum ungmennum
Fréttir
Í gær

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Í gær

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“