fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fréttir

Vildu að leigjandi íbúðarinnar borgaði fyrir rafmagn og hita í bílskúrnum sem hann var ekki að leigja

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 12. september 2024 19:30

Mynd af íbúð í bílskúr. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér úrskurð í kærumáli manns sem leigði íbúð í eitt og hálft ár. Fór hann fram á að eigendur íbúðarinnar yrðu látnir greiða fyrir kostnað vegna umframnotkunar á rafmagni og hita sem leigjandinn var rukkaður um. Var hluti þess kostnaðar tilkominn vegna bílskúrs sem tilheyrði fasteigninni en leigjandinn var ekki með þann bílskúr á leigu. Voru reikningarnir samtals um 362.000 krónur.

Leigjandinn leigði íbúðina frá því í maí 2021 til ársloka 2022. Á þessu tímabili var íbúðin seld tvisvar en í bæði skiptin var umsamið að leigjandinn gæti leigt íbúðina áfram. Eigendurnir tveir sem leigjandinn deildi við keyptu íbúðina í október 2022 en umframnotkunin á hita og rafmagni kom í ljós við álestur á mælum í janúar 2023.

Leigjandinn sagði að nokkrum dögum eftir að mælar vegna hita og rafmagns voru skráðir á eigendurna hafi hann fengið háa reikninga bæði frá Veitum og N1 vegna umframnotkunar á hita og rafmagni á  tímabilinu maí 2021 til nóvember 2022. Sá mælir sem hann hafi greitt af á leigutíma hafi einnig mælt notkun í bílskúr sem tilheyri íbúðinni, en í honum séu tvær stúdíóíbúðir sem hafi verið í útleigu til annarra. Leigjandinn sagðist hafa verið ómeðvitaður um þetta en öll gjöld hafi verið innifalin í leigu þeirra sem hafi leigt bílskúrinn. Bæði núverandi og fyrrverandi eigendur hafi talið að þeim bæri engin skylda til að greiða reikninga vegna umframnotkunar á hita og rafmagni.

Hafi verið í góðri trú

Þegar núverandi eigendur keyptu íbúðina flutti leigjandinn út og þau sjálf inn í lok árs 2022. Eigendurnir tjáðu nefndinni að þá hefðu íbúðirnar tvær sem bílskúrnum var skipt í báðar verið í útleigu. Eigendurnir sögðu að seljandi íbúðarinnar hefði fullvissað þau um að rafmagns- og heitavatnsmælar hefðu verið skráðir á þau og segjast því hafa komið af fjöllum þegar leigjandinn hafi óskað eftir því í janúar 2023 að hans nafn yrði skráð af mælunum og yfir á þau.

Þessari bón hafi þau strax orðið við en eftir sem áður beri leigjandinn ábyrgð á því að greiða reikningana fyrst hann lét skrá sig fyrir mælunum í maí 2021 þegar hann flutti inn. Þetta hafi hann bersýnilega samið um við fyrri eiganda.

Leigjandinn sagði að hann hefði gert eigendunum grein fyrir því þegar nafn hans var afskráð af mælunum að hann hefði verið rukkaður fyrir notkun á hita og rafmagni í bílskúrnum og þau séu ábyrg fyrir útistandandi reikningum þar sem þeirra nöfn hafi verið á mælunum frá janúar 2023.

Eigendurnir sögðust hins vegar aðeins bera ábyrgð á að greiða fyrir orkunotkun frá því að þau fluttu inn í desember 2022 en ekki uframnotkunina sem eins og áður segir náði yfir tímabilið maí 2021 til nóvember 2022.

Engar ráðstafanir gerðar til að mæla orkunotkun í bílskúrnum

Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála segir meðal annars að við álestur á mælunum hafi komið fram að umframnotkunin á hita og rafmagni væri aðallega tilkomin vegna notkunar í bílskúrnum sem leigjandinn var ekki með á leigu.

Sagði nefndin gögn málsins ekki benda til annars en að bílskúrinn hafi verið settur í útleigu án þess að gerðar hafi verið ráðstafanir vegna mælinga á orkunotkun leigueininga hans en slíkt hafi verið á ábyrgð eiganda fasteignarinnar. Nefndin taldi ekkert benda til annars en að leigjandinn hafi greitt alla reikninga vegna orkunotkunar á leigutíma í góðri trú um að hann væri að inna af hendi mánaðarlega fjárhæð í samræmi við orkunotkun íbúðarinnar og telur nefndin engar forsendur fyrir því að hann verði gerður ábyrgur fyrir kostnaði vegna orkunotkunar í bílskúrnum.

Nefndin taldi hins vegar ómögulegt að skera úr um nákvæmlega hversu mikinn hluta leigjandinn og leigjendur íbúðanna í bílskúrnum áttu í uframnotkuninni. Taldi hún þó þann fyrrnefnda bera hluta ábyrgðarinnar. Komst hún því að þeirri niðurstöðu að eigendurnir ættu að borga 2/3 af upphæðinni sem deilt var um eða alls rétt tæplega 242.000 krónur

Leigjandinn situr þá væntanlega uppi með afganginn sem er um 120.000 krónur en þess er þó ekki sérstaklega getið í úrskurðinum.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?
Fréttir
Í gær

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund