Það mun skýrast fyrir hádegi hvort verslunarmiðstöðin Kringlan verður opnuð í dag en samkvæmt afgreiðslutíma á hún að opna kl. 12 á hádegi.
„Það er bara verið að meta stöðuna núna. Það er verið að þurrka upp og þetta er aðallega vatnstjón. Það eru bara menn að ganga hringinn núna og kanna aðstæður,“ segir Inga Rut Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kringlunnar, í stuttu viðtali við DV.
Eldur kviknaði í þaki Kringlunnar á fjórða tímanum í gærdag en slökkvilið náði að slökkva eldinn í gærkvöld. Verulegt vatnstjón varð á fyrstu og annarri hæð hússins.
„Sem betur fer er stór hluti hússins í lagi. Ég áætla að um tíu verslanir hafi orðið fyrir verulegu tjóni,“ segir Inga ennfremur. Hún segir að sumir rekstraraðilar hafi óskað eftir að opna.
„Það er ósk sumra að fá að opna, þeirra sem geta það. Það verður gefið út bara eftir smá stund. Það á að opna 12 og við reynum að gefa það út fyrir þann tíma. Tilkynning verður birt,“ segir Inga.
Samkvæmt mbl.is verður Kringlan lokuð í dag og á morgun. Þetta kemur fram í tölvupósti sem rekstrarfélag Kringlunnar sendi rekstraraðilum um ellefu-leytið í morgun. Þar segir meðal annars:
„Unnið var í alla nótt við reyklosun og að þurrka upp svæði sem voru á floti. Loftgæði í húsinu eru enn slæm, mikil lykt á stórum svæðum svo það er ekki forsvaranlegt að hafa opið.“