Hvalfjarðargöngunum var lokað skamma stund á mánudagskvöldið eftir að ferðamaður á hjóli villtist þangað inn. Lögreglan á Vesturlandi var kölluð til og göngunum lokað á meðan hjólreiðamaðurinn fékk lögreglufylgd þann spöl sem hann átti eftir ófarinn. Lokunin tafði þá sem áttu leið um göngin, meðal annars Strætisvagn, og sumir furðuðu sig á því að hjólreiðamanninum hafi verið leyft að klára að hjóla göngin fremur en að hann væri látinn skilja hjólið eftir og skutlað í gegn af lögreglu.
Lögreglan á Vesturlandi segir í skriflegu svari við fyrirspurn að hjólreiðamaðurinn hafi ekki haft hugmynd um að ekki mætti hjóla í göngunum. Lokun stóð aðeins yfir í fáeinar mínútur á meðan manninum var fylgt þann spöl sem hann átti ófarinn í öryggisskyni. Taldi lögregla ekki ráðlegt að skilja hjólið eftir í göngunum. Tilvik sem þessi eru fátíð og ekki venjur eða ferlar til um afgreiðslu þeirra. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort hjólreiðamanninum verða gerð einhver viðurlög.
Leiðin upp úr göngunum virðist hafa tekið á hjólreiðamanninn. Hann steig af hjóli sínu og settist í grasið eftir að lögreglan hafði yfirgefið hann.
Vegagerðin greindi frá sambærilegu tilviki í júní á síðasta ári. Þá hafði blaðamaður mbl.is verið í göngunum og séð hvar hjólreiðamaður reiddi hjólið niður brekkuna norðan megin í göngunum. Þá stóð lokun yfir í tæpan hálftíma.
Hjóla má í gegnum öll göng á Íslandi nema Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng. Hjólreiðamenn hafa í gegnum árin furðað sig á þessu banni, en það má rekja til öryggismála þar sem hjól eigi erfitt með að halda meðalhraða í gegnum göngin sem er um 70 km/klst. Umferð gangandi og hjólandi vegfarenda, umferð reiðmanna og rekstur búfjár er bannaður í göngunum nema með sérstöku leyfi lögreglustjóra.
Það getur þó verið skiljanlegt að erlendir hjólreiðamenn ruglist þar sem ef leitað er leiða frá höfuðborginni út fyrir Hvalfjörð í gegnum kortasjánna á Google þá eru engar hjólaleiðir í boði og fólki því bent á gönguleið, þar sem Hvalfjörðurinn er genginn, eða þá að fólki er bent á leið fyrir bifreiðar og almenningssamgöngur, í gegnum göngin.