Árni Freyr Magnússon, tengdasonur forsetaframbjóðandans Baldurs Þórhallssonar, festi kaup á forlátum íslenskum þjóðfána á uppboði í Danmörku fyrir nokkrum árum. Hann hefur nú gefið tengdaföður sínum fánann og vill endilega sjá hann fylgja Baldri til Bessastaða.
DV greindi frá uppboðinu í júní byrjun árið 2021 en það var haldið hjá danska uppboðshúsinu Bruun Rasmussen.
Fáninn er 131 sinnum 188 sentimetra stór og áritaður af Sveini Björnssyni, fyrsta forseta lýðveldisins. Áritun Sveins hefur aukna þýðingu í ljósi þess að hann var forsetinn sem staðfesti lög um íslenska þjóðfánann.
Ekki var gefið upp hver seljandinn var en samkvæmt uppboðshúsinu var fáninn annar tveggja sem Sveinn áritaði til þess að gefa til styrktar uppboði fyrir hermenn sem börðust í seinni heimsstyrjöldinni. Gert var ráð fyrir því að fáninn myndi seljast á 300 til 400 hundruð þúsund krónur.
Nú greinir Árni Freyr Magnússon frá því á samfélagsmiðlum að hann hafi keypt téðan fána á uppboðinu. Einnig að hann hafi gefið tengdaföður sínum hann.
„Að sjá fánann fylgja tengdaföður mínum á Bessastaði væri alveg frábær viðbót við þá ánægju að sjá þennan trausta og góða mann kjörinn forseti Íslands,“ segir Árni.