Í færslu á Facebook segist Geir ætla að kjósa Höllu Hrund Logadóttur og fyrir því eru nokkrar ástæður.
„Ég hef fylgst með Höllu Hrund í allmörg ár allt frá því hún leitaði ráða hjá mér varðandi framhaldsnám í Bandaríkjunum. Hún vakti strax athygli mína fyrir eldmóð og atorku. Hún er velviljuð, á auðvelt með að tengjast öðru fólki og hefur þann góða kost að hafa meiri áhuga á viðfangsefnum sínum en sjálfri sér. Ég tel að hún hafi það sem til þarf til að gegna hinu mikilvæga embætti forseta Íslands með glæsibrag. Þess vegna ætla ég að kjósa hana.“
Geir segir að það skipti máli hver er forseti, ekki vegna þess að forsetinn hafi pólitísk völd – þar sem þau eru í raun lítil – heldur vegna þess að góður forseti getur haft mikið og jákvætt áhrifavald út um allt samfélagið og beitt sér til góðs á fjölmörgum sviðum. Segir Geir að um þetta höfum við góð dæmi úr tíð fyrri forseta.
„Forseti Íslands þarf auðvitað að kunna góð skil á sínum stjórnskipulegum skyldum, sem vissulega skipta máli þegar á þær reynir. Ég er ekki í vafa um að Halla Hrund mun sinna þeim skyldum fumlaust og af fullri festu en jafnframt virðingu fyrir því að á Íslandi er þingræði og kjósendur velja sér þingmenn og ríkisstjórn til að fara með daglega pólitíska stjórn í landinu.“
Geir segir að forsetinn þurfi líka að vinna að samstöðu og einingu þjóðarinnar á nýjum tímum í síbreytilegu samfélagi.
„Halla Hrund hefur sýnt að hún hefur reynslu og burði til að sinna því hlutverki svo vel fari. Samhliða þessu er forsetinn mikilvægt tákn fullveldis íslensku þjóðarinnar gagnvart öðrum ríkjum og fulltrúi hennar við ýmis mikilvæg tilefni á erlendri grundu. Það verkefni mun leika í höndum Höllu Hrundar.“