DV greindi í gær frá skiptalokum í þrotabúi hjá byggingafélaginu Bygg Örk, en eigandi þess var Ásgeir Arnór Stefánsson. Ekkert fékkst upp í lýstar kröfur því þær eignir sem fundust í búinu fóru í skiptakostnað. Lýstar kröfur voru hátt í 323 milljónir króna.
Síðasta sumar var Ásgeir sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir skattsvik í rekstri fyrirtækisins. Vanskil fyrirtækisins á staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna þess námu nokkuð yfir 80 milljónum króna. Ásgeir játaði brot sín fyrir dómi og var dæmdur 14 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða rúmlega 152 milljónir í sekt í ríkissjóð eða sitja ella í fangelsi í eitt ár.
Eins og DV hefur áður greint frá var Örk miðpunktur í frægu slysi í miðborginni árið 2016 en þá hrundi byggingarkrani sem fyrirtækið var með á leigu í Hafnarstræti. Stórhættulegt atvik og mildi að ekki urðu slys á fólki.
Upplýsingar í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra sýna að í síðastliðnum aprílmánuði voru tvö fyrirtæki úrskurðuð gjaldþrota sem tengjast Ásgeiri Arnóri Stefánssyni. Börk eignarhald ehf. var úrskurðað gjaldþrota þann 3. apríl síðastliðinn, en fyrirtækið var stofnað í mars árið 2019. Félagið var með póstfang að Skipholti 50c. Starfsemi þess var bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Skráður eigandi er Ásgeir Arnór Stefánsson.
Aðalból byggingafélag var úrskurðað gjaldþrota þann 17. apríl síðastliðinn. Póstfang félagsins er að Hlaðbæ 13 í Reykjavík. Sami flokkur starfsemi og Börk og skráður eigandi er Ásgeir Arnór Stefánsson. Félagið var stofnað árið 2009.