fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Tíkin Tita var drepin á Laugarási – „Tímaspursmál hvenær þessir hundar ráðast á eitthvað annað“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 11. maí 2024 09:00

Tita og dráparar hennar. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigandi lítils hunds sem var drepinn af tveimur hundum inni á lóð nágranna í Laugarási furðar sig á því að lögregla virðist lítið ætla að gera í málinu. Hún segir hundana hafa valdið meiri skaða og óttast um börnin, sem meðal annars koma mörg í Laugarás til að heimsækja dýragarðinn Slakka. Eigandi hundanna tveggja segir drápið ekki á hans ábyrgð þar sem litli hundurinn hafi laus komið inn á lóðina.

„Það er bara tímaspursmál hvenær þessir hundar ráðast á eitthvað annað. Ég held að það verði að byrgja brunninn áður en eitthvað verra gerist,“ segir Sonja Margrét Magnúsdóttir íbúi á Laugarási í Bláskógabyggð, nálægt Skálholti.

Lítil trú á lögreglunni

Fyrir rétt rúmum mánuði slapp hundurinn hennar, tíu ára púðlublendings tík að nafni Tita, út og fór inn á lóð nágrannans Ragnars Sverrissonar. En þar heldur hann tvo stærri veiðihunda.

Sonja sjálf var erlendis þegar þetta gerðist en sú sem var að passa hundinn hljóp á eftir hundinum. Þegar hún kom að lóð Ragnars var henni sagt að tíkin hefði komið inn á lóðina og hundarnir hefðu drepið hana.

Lögregla var kölluð til á staðinn og tekin var skýrsla. Sonja furðar sig á aðgerðarleysi lögreglunnar í málinu. Skrýtið sé að verur sem fari inn á lóðina séu í raun réttdræpar.

„Þeir segja að af því að þetta gerðist inni á lóð þeirra sé voða lítið sem hægt sé að gera. Nema setja hundinn í sálfræðimat,“ segir Sonja en hefur ekki mikla trú á að lögreglan geri mikið í málinu.

Þá hefur hún heldur ekkert heyrt frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð eftir að málið var tilkynnt þangað. Í samþykkt um hundahald í Bláskógabyggð segir meðal annars:

„Að hundurinn raski ekki ró íbúa sveitarfélagsins og sé hvorki þeim né þeim sem um sveitarfélagið fara til óþæginda, með tilliti til hávaða, óþrifnaðar, eyðileggingar verðmæta, slysahættu eða ógnunar.“

Girðing um hálsinn

Laugarás er lítið þorp, þar búa í kringum 100 manns. Tekist var hart um málið á samfélagsmiðlagrúbbu íbúanna. Var þar meðal annars nefnt að engin girðing væri á lóðinni, en Ragnar segir að hundarnir séu girtir inni og hafi aðeins komist út af lóðinni í 2 eða 3 skipti á þremur árum.

„Ég er með afgirta lóð, þeir mega vera úti á lóð. Þeir eru innan girðingar, þeir eru með girðingu um hálsinn,“ segir Ragnar í samtali við DV, aðspurður um hvernig hann héldi hundunum inni á lóðinni. Er þá um svokallaða rafmagnsól að ræða.

Laugarás er lítið þorp nálægt Skálholti.

Hafnar hann allri ábyrgð á drápinu. „Þó að mínir hundar hafi vegið þennan hund þá liggur ábyrgðin hjá þeim sem átti þennan hund. Hún átti að passa hann betur,“ segir Ragnar.

Óttast um börnin

Eins og áður segir var hart tekist á um málið í grúbbunni. Eru sumir á þeirri skoðun að lóga beri hundi sem bítur og nefnt er að hundarnir hafi ekki aðeins skaðað Titu.

„Hann beit dóttur nágranna míns þegar hún ætlaði að klappa honum,“ segir Sonja við DV. Segir hún að þeir hafi einnig drepið ketti, gæs og bitið annan hund sem hafi þurft að fara í aðgerð.

„Þetta er í sömu götu og Slakki. Það er mjög mörg börn sem labba þarna fram og til baka þegar það er opið. Ég gekk þarna fram hjá um daginn og þeir voru þarna fyrir utan, enginn múll eða neitt.“

Ekki áhyggjur af skapgerðarmati

Ragnar segir að hundarnir séu á leiðinni í skapgerðarmat eftir drápið á Titu. Hann hafi ekki áhyggjur af því.

„Þetta er allt í ferli. Þeir koma örugglega vel út úr því,“ segir Ragnar. „Sú sem átti þennan hund hefði betur passað hann því hann var búinn að vera laus í marga daga á undan. Ég var búinn að passa mína hunda eins vel og ég gat en svo fór það í þetta skipti fram hjá mér að ég varð ekki var við þennan hund.“

Ragnar hafnar því að hundarnir hafi bitið börn, ketti eða nokkuð annað dýr. Aðspurður um hvað gerist ef smábarn fer óvart inn á lóðina hjá honum segir hann það alveg óhult. Hundarnir séu ekki hættulegir.

„Ekki nema þegar kemur minkur eða refur eða einhver smáhundur,“ segir hann. „Þetta eru ekki hættulegir hundar. Það er bara í eðli hundanna að gera þetta.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“