fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Sagt upp eftir að hún krafðist leiðréttingar á kjörum sínum vegna meintrar mismununar

Ritstjórn DV
Mánudaginn 6. maí 2024 19:00

Kærunefnd jafnréttismála heyrir undir forsætisráðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að ónefnt fyrirtæki hafi sagt konu upp störfum eftir að hún kvartaði yfir því að vera á lægri kjörum en eðlilegt gæti talist og vildi meina að um væri að ræða mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna. Krafðist konan leiðréttingar á kjörum sínum en var sagt upp störfum í kjölfarið. Taldi nefndin að konunni hefði ekki tekist að sýna fram á að hún hafi orðið fyrir mismunun en hins vegar hefði verið sýnt fram á að henni hafi verið sagt upp störfum vegna kvörtunar sinnar.

Konan kærði fyrirtækið til nefndarinnar í nóvember 2021. Vildi hún meina að mismununin hefði farið fram með þeim hætti að henni hafi ekki verið veittur kaupréttur við úthlutun slíkra réttinda árið 2010, þrátt fyrir að aðrir starfsmenn sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún hefðu fengið kauprétt. Einnig hefði henni verið mismunað með því að veita henni lægri kauprétt en þeim starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum við úthlutun kauprétta árið 2015 og með því að greiða henni lægri laun en þeim sem gegndu jafn verðmætum eða minna verðmætum störfum en voru jafnframt með minni starfsreynslu.

Í úrskurðinum segir að Kærunefnd jafnréttismála hafi komist að sömu niðurstöðu og nú í lok árs 2022. Sá úrskurður hafi hins vegar verið afturkallaður þar sem að konan hefði ekki verið upplýst um að niðurstaðan hefði að hluta til byggt á tilteknum gögnum sem fyrirtækið hefði óskað eftir trúnaði um. Þar með hafi ekki verið gætt nægilega að andmælarétti konunnar. Nefndin tók því málið fyrir að nýju.

Starfaði lengi hjá fyrirtækinu

Í úrskurðinum kemur fram að konan hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 2007 til 2021 en hjá forverum þess frá árinu 2000. Eftir að hún lauk háskólanámi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum árið 2013 tók hún við stöðu framkvæmdastjóra markaðsmála. Konan fékk loks endurbættan kaupréttarsamning árið 2020 en krafðist sumarið 2021 leiðréttingar á kjörum sínum þar sem hún hafi ekki fengið kauprétt 2010 og lægri kauprétt árið 2015 en starfsmenn sem gengdu sambærilegum störfum. Kröfum hennar var hafnað og í september 2021 var henni sagt upp störfum.

Segir konan meðal annars í kæru sinni að hún telji að kyn hennar, kynþáttur, og þjóðernisuppruni hafi átt sinn þátt í þeirri mismunun sem hún hafi orðið fyrir þegar kom að kjörum hennar. Fram kemur í úrskurðinum að konan er af erlendum uppruna. Konan vildi einnig meina að fyrirtækið hefði brotið lög með því að segja henni upp á meðan hún hefði leitað réttar síns vegna meintrar mismununar af hálfu þess. Það hefði beinlínis verið tekið fram í uppsagnarbréfinu að sú væri ástæða uppsagnarinnar.

Konan færði í kærunni ítarleg rök fyrir því að hún hefði verið einn af lykilstjórnendum fyrirtækisins og með því að stýra markaðsstarfi þess með árangursríkum hætti hafi hún átt talsverðan þátt í að markaðsvirði fyrirtækisins hefði nær fjórfaldast frá 2015 til 2021 og að hugbúnaður þess væri seldur um allan heim.

Hafnaði öllum fullyrðingum konunnar

Í úrskurðinum kemur fram að fyrirtækið hafnaði öllum fullyrðingum konunnar. Fyrirtækið sagði það ekki hafa komið fram í uppsagnarbréfinu að ástæða uppsagnarinnar væri að konan hefði leitað réttar síns heldur sú ástæða að bréf sem konan hefði sumarið 2021 sent stjórn fyrirtækisins hefði innihaldið meiðandi og ósannar fullyrðingar.

Þessar fullyrðingar hefðu verið þær að forstjóri fyrirtækisins hafi hvatt konuna til að starfa áfram hjá fyrirtækinu þrátt fyrir órétt­læti tengt úthlutun kauprétta á árinu 2010, sem sé ekki rétt enda hafi forstjórinn aldrei rætt við konuna um kaupréttina. Konan hafi einnig fullyrt ranglega að forstjórinn hafi ítrekað brotið gegn henni á grundvelli kyns og kynþáttar og þriðja meiðandi og ósanna fullyrðingin væri að forstjórinn hafi brotið gegn konunni með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, með meintu samtali um kauprétti veitta á árinu 2010.

Sagði fyrirtækið þessar fullyrðingar konunnar hafa orsakað slíkan trúnaðarbrest að ekki hafi verið mögulegt að hafa hana áfram í starfi. Vildi fyrirtækið einnig meina að konan hafi gert of mikið úr hlut sínum við tekjuöflun fyrirtækisins en að konunni hefði verið sýnt mikið traust og að fyrirtækið hafi stutt hana til að öðlast framgang í starfi, til að mynda með því að greiða henni fyrir öll námskeið sem hún lauk í námi sínu við Háskóla Íslands.

Báðir aðilar tapa og vinna

Í niðurstöðu Kærunefndar jafnréttismála segir að í ljósi þess hversu langur tími leið frá því að konunni varð kunnugt um kaupréttarsamningana og þar til leiðrétt­ingarkrafan var sett fram sé ekki hægt að  fallast á að hún geti byggt leiðréttingar­kröfu sína á því að henni hafi ekki verið úthlutað kauprétti á árinu 2010.

Í úrskurðinum segir enn fremur að gögn málsins sýni fram á að málefnalegt hafi verið að þrír af æðstu stjórnendum fyrirtækisins hafi fengið hærri kauprétti en aðrir, þar á meðal konan, í ljósi þess að þeir voru í forsvari fyrir umfangsmikla markaðsherferð fyrirtækisins. Kaupréttum hafi sýnilega verið úthlutað óháð kyni. Einnig sýni gögn að enginn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins hafi verið á sömu launum en konan hafi verið um miðbik hópsins. Rökrétt sé að laun hækki í samræmi við aukna faglega ábyrgð. Því sé ekki hægt að fallast á það að konunni hafi verið mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna þegar kjör hennar voru ákvörðuð.

Nefndin segir hins vegar að ekki verði litið framhjá því að konunni hafi beinlínis verið sagt upp störfum vegna leiðréttingarkröfu hennar, jafnvel þótt krafan hafi að mati fyrirtækisins leitt til trúnaðarbrots í ljósi framsetningar á henni.

Því er það niðurstaða Kærunefndar jafnréttismála að fyrirtækið hafi ekki mismunað konunni við ákvörðun um kjör hennar en að fyrirtækið hafi sagt henni upp vegna þess að hún hafi krafist leiðréttingar á kjörum sínum á grundvelli hinnar meintu mismununar. Það síðarnefnda segir nefndin vera brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði sem kveði á um að starfsmaður sem telji sig misrétti beittan megi ekki gjalda þess að leita réttar síns.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe