Rússneska varnarmálaráðuneytið staðfesti fyrirhugaðar æfingar í morgun og eru þær sagðar gerðar að kröfu Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Verður undirbúningur og notkun þessara vopna æfð.
Rússar segja að Bandaríkjamenn og bandaþjóðir þeirra í Evrópu séu að ýta heiminum í átt að „átökum á milli kjarnorkuvelda“ með fjárframlögum til Úkraínu.
Rússland og Bandaríkin eru stærstu kjarnorkuveldi heims en saman eiga þau um 10.600 kjarnaodda af þeim 12.100 sem til eru í heiminum. Þar á eftir koma Kína, Frakkland og Bretland.
Í frétt Reuters er þess getið að kjarnorkuveldi heimsins sinni viðhaldi og æfi jafnvel undirbúning fyrir notkun þeirra. Að tilkynna um slíkt, líkt og Rússar gera nú, og setja æfingarnar í samhengi við tilgreinda ógn eigi sér hins vegar vart hliðstæðu.