Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gær og nótt eins og vanalega á laugardögum. Meðal annars þurfti hún að hafa afskipti af manneskju sem var með leiðindi á spítala í hverfi 108, sem gera má ráð fyrir að sé Borgarspítalinn.
Lögregla skakkaði einnig leikinn á milli aðila í slagsmálum í Hlíðahverfinu. Í því hverfi var einnig tilkynnt um að óvelkomnir aðilar væru komnir inn í bygginu. Þá var tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað í miðborginni sem og umferðaróhapp.
Í Garðabæ var lögregla og sjúkralið kölluð til þegar tilkynnt var um slasaðan aðila. Þegar þau mættu á svæðið var hins vegar engan slasaðan að finna.
Á Völlunum í Hafnarfirði var lögregla kölluð til vegna ósættis heimilisfólks, sem og í Kópavogi þar sem ósætti var á milli aðila. Þar var líka dósum kastað niður af svölum á bílaplan.
Í hverfi 112, Grafarvogi, voru ungmenni með leiðindi í sundlaug. Einnig aðili í Háaleitishverfinu sem var ekið heim af lögreglunni.