Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Páli að þróunin bendi til að kvikukerfið líti ekki alveg út eins og sérfræðingar hafa talið fram að þessu. „Þetta er fyrsta skiptið sem við sjáum svona. Það er engin reynsla til að byggja á um hvað þetta kann að þýða upp á framtíðina,“ er haft eftir honum. Hann sagði einnig að hegðun af þessu tagi í rótum jarðar, hafi aldrei sést áður, hvorki hér á landi né erlendis.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki telja miklar líkur á tveimur gosum í einu, líklegra sé að það bæti í styrk yfirstandandi goss. „Við getum ekkert útilokað hinn möguleikann en mér þykir það nú líklegt miðað við það að kvika leitar yfirleitt eftir auðveldustu leiðum til yfirborðs. Hún reynir yfirleitt ekki að finna flóknar og erfiðar leiðir,“ sagði Þorvaldur.