Leiðinlegt óhapp átti sér stað nú fyrir stundu við húsnæði Útlendingastofnunnar við Dalveg í Kópavogi þegar bifreið lenti í árekstri við bygginguna. Svo virðist sem að bílstjórinn, eldri kona, hafi fyrir mistök ýtt á bensíngjöf bifreiðinnar í stað bremsu og afleiðingarnar voru þær að bifreiðin klessti með miklu afli á bygginguna.
Talsverðar skemmdir urðu vegna slyssins. Rúða brotnaði og þá sprakk ofn sem gerði það að verkum að slökkviliðið var kallað á svæðið til að dæla burt heitu vatni sem seitlaði frá ofninum.
Lögreglan var fljót á vettvang enda hæg heimatökin, laganna verðir eru með skrifstofu í sama húsi.
Mbl.is greinir frá því að karlmaður sem sat við vinnu hafi slasast og verið fluttur á slysadeild en blessunarlega hafi meiðsli hans ekki verið alvarleg.