Einingaverksmiðjan hlaut Sýningarverðlaun Verk og vit 2024 og Rafmennt hlaut verðlaunin Athyglisverðasta sýningarsvæðið en verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á sýningunni í Laugardalshöll í gær. Rúmlega 100 sýnendur taka þátt í sýningunni sem lýkur í lok dags. Mikill fjöldi gesta hefur lagt leið sína á stórsýninguna Verk og vit, sem haldin er nú í sjötta sinn, og búist við áframhaldandi fjölda gesta í dag, eins og segir í tilkynningu.
Dómnefnd átti í miklum vandræðum með að velja rými í þessa flokka að sögn Elsu Giljan Kristjánsdóttur, sýningarstjóra Verk og vit, því sýningarsalurinn er einstaklega glæsilegur í ár og mikill metnaður lagður í rýmin. Einingaverksmiðjan, hlaut eins og áður sagði, Sýningarverðlaunin, Steypustöðin varð í öðru sæti og Verkfærasalan í því þriðja. Rafmennt bar sigur úr býtum fyrir Athyglisverðasta sýningarsvæðið, í öðru sæti varð Ístak og Gólfefnabúðin hafnaði í því þriðja.
Dómnefndina skipuðu þau Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, Árni Reynir Alfreðsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélaginu, Birna Rún Gísladóttir markaðsráðgjafi og Elsa Giljan Kristjánsdóttir, sýningarstjóri Verk og vit 2024. Steypustöðin bjó til verðlaunagripina.
„Það er ávallt mikill heiður að veita þessi verðlaun og enn meiri heiður að vinna með sýnendum að því að koma upp stórsýningu eins og Verk og vit. Sýningarrýmin eru metnaðarfull og vinnan á bak við hvert þeirra er heilmikil. Sýnendur eru frumlegir, útsjónarsamir og hafa hugað vel að því sem þeir vilja sýna og fræða gesti Verk og vit um. Þó að veitt séu verðlaun hverju sinni og að einungis sex sýnendur hljóti þann heiður tel ég að öll sem koma að sýningunni eigi mikið lof skilið og eru raunar öll sigurvegarar,“ segir Elsa Giljan.
Í flokknum Sýningarverðlaun Verk og vit var horft til glæsileika sýningarsvæðis, útfærslu lýsingar og heildarhönnunar. Að mati dómnefndar þótti sýningarsvæði Einingaverksmiðjunnar einstaklega glæsilegt. Rýmin voru vel hönnuð með praktískum lausnum og opnu rými sem fangaði athygli sýningargesta við fyrstu sýn.
,,Þetta er mikill heiður, sem er okkur er sýndur, að hljóta þessi verðlaun og við erum að sjálfsögðu í skýjunum með þau. Þetta er í fyrsta sinn sem við tökum þátt í Verk og vit og það er mjög gaman að taka þátt. Við erum afar ánægð með sýninguna í heild sinni og alla umgjörð hennar. Það er ánægjulegt að hitta gesti og kynna fyrir þeim þær lausnir í forsteyptum einingum sem við erum að bjóða,“ segir Gígja Sif Víðisdóttir, markaðs- og sölufulltrúi hjá Einingarerksmiðjunni.
Hún segir að það sé mikið í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir. ,,Við vorum að flytja í nýja verksmiðju að Koparhellu 5 í Hafnarfirði og auk þess erum við að fagna 30 ára afmæli í ár þannig að þetta er stórt ár hjá Einingaverksmiðjunni.“
Í flokknum Athyglisverðasta sýningarsvæðið var meðal annars metið form, grafík, litasamsetning, hversu athyglisvert það væri og hvort sýningarsvæðið endurspeglaði viðkomandi starfsemi.
,,Það er mikil viðurkenning að vinna til þessara verðlauna og það er flott viðurkenning fyrir rafiðnaðinn í landinu. Þetta er búin að vera frábær sýning og hún er alltaf að verða flottari. Það er mikið lagt í hana og bæði framkvæmdaaðilar hennar og sýnendur hafa mikinn metnað að gera hana sem glæsilegasta. Það er gaman að fá svona mikið af fólki í heimsókn og mér þótti sérlega gaman að fá hingað mikinn fjölda 10. bekkjarnema í gær. Þau voru mjög áhugasöm og það er afar gaman að nálgast þennan hóp,“ segir Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmennt.
Að mati dómnefndar þótti sýningarsvæði Rafmennt mjög svo lýsandi fyrir þeirra starf og fangaði sýningarrýmið athygli gesta strax. Sýningarmunir eru aðgengilegir og vel sýnilegir og höfða vel til markhópsins. Einnig var vel staðið að fræðslu og kynningarháttum og var það bersýnilegt að fulltrúar Rafmennt náðu að fræða og upplýsa sína gesti á skemmtilegan hátt.