fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fréttir

Tókst ekki að sanna að leigjandinn hefði ekki þrifið húsnæðið en fær vangreidda leigu greidda

Ritstjórn DV
Laugardaginn 20. apríl 2024 13:30

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur kveðið upp úrskurð í máli þar sem leigusali krafðist þess að fyrrum leigjanda hans yrði gert að greiða leigu fyrir bæði október og nóvember 2023. Nefndin féllst á hluta krafna leigusalans en hafnaði því sem eftir stóð þar sem honum hafði ekki tekist að færa sönnur á að viðskilnaður leigjandans við húsnæðið hefði verið óviðunandi.

Í úrskurðinum segir að leigusalinn og leigjandinn hafi gert með sér ótímabundinn leigusamning 1. júlí 2023. Leigutímanum lauk hins vegar áður en árið var úti og vildi leigusalinn að nefndin myndi úrskurða um að leigjandinn skuldaði honum leigu fyrir áðurnefnda tvo mánuði.

Það kemur ekki fram í hvaða sveitarfélagi húsnæðið er en líklega er það á Norðurlandi.

Í úrskurðinum kemur fram að leigusalinn hafi sagt leigusamningnum upp eftir að hann frétti af því að leigjandinn, sem er kona, hafi framleigt herbergi í húsnæðinu til fjölda einstaklinga. Leigjandinn hafi þó fengið leyfi fyrir því að tveir vinir hennar byggju í húsnæðinu með henni. Síðar hafi leigjandinn fengið leyfi til að auglýsa herbergin en skýrt hafi verið tekið fram að leigusalinn ætti að fá upplýsingar um hverjir kæmu til með að leigja herbergin. Hann hafi engar slíkar upplýsingar fengið og því talið að enginn hefði leigt herbergin.

Tapaði á því að taka ekki myndir

Leigusalinn sagðist hafa keyrt frá Akureyri til að taka við húsnæðinu við lok leigutíma en leigjandinn hafi þá ekki verið viðstödd. Húsið hafi verið ólæst, óhreint og ekki hafi verið búið að tæma það. Hann sagði nágranna geta staðfest óhreinindin en honum hafi láðst að taka myndir. Leigusalinn fullyrti að ekki hafi verið hægt að leigja húsnæðið út að nýju á réttum tíma vegna ástands þess. Það hafi þurft að þrífa það og taka þar til. Þess vegna hafi hann farið fram á að leigjandinn greiði einnig leigu vegna nóvember og þá fyrir allan mánuðinn eða hluta hans.

Þessi gleymska leigusalans að taka ekki myndir af ástandi húsnæðisins þegar hann tók við því átti eftir að koma í bakið honum.

Um sjónarmið leigjandans segir í úrskurðinum að hún fullyrði að það sé rangt að húsnæðinu hafi verið skilað óhreinu. Hún hafi þrifið það og tekið myndir, því til sönnunar. Þá hafi hún leyft tveimur vinum sínum að búa með sér en fyrir því hafi hún verið búin að fá leyfi fyrir frá leigusalanum. Leigjandinn sagði einnig að það væri rangt sem hafi komið fram í leigusamningi að átta herbergi séu í húsnæðinu. Fjögur svefnherbergi séu á efri hæðinni og hin séu á neðri hæðinni. Annar einstaklingur hafi leigt herbergin á neðri hæðinni af leigusalanum.

Myndirnar segi ekki alla söguna

Leigusalinn sagði þessar fullyrðingar leigjandans ekki réttar. Hún hafi ekki minnst á að hún hafi ekki greitt leigu síðasta mánuðinn. Húsnæðið  hafi verið langt frá því að vera hreint. Myndir leigjandans gefi ekki rétta mynd af ástandinu og segir í úrskurðinum að leigusalinn hafi lýst því ítarlega hvar þrifum hafi verið ábótavant.

Leigjandinn sagði í viðbótar athugasemd að hún hefði tekið myndirnar 26. október 2023 og þrifið húsnæðið vel.

Í niðurstöðu Kærunefndar húsamála segir að samkvæmt samkomulagi leigusalans og leigjandans hafi leigutíma á leiguhúsnæðinu lokið 31. október 2023. Leigusalinn hafi stutt þá fullyrðingu sína að leigjandinn hafi ekki greitt leigu fyrir október  með því að leggja fram rafræn samskipti þeirra á milli. Leigjandinn hafi ekki lagt fram nein mótmæli gegn þessu. Því féllst nefndin á að leigjandanum beri að greiða leigu að fjárhæð 295.000 krónur vegna október 2023.

Þegar kom að kröfu leigusalans um leigu fyrir nóvember 2023, vegna skorts á þrifum, gegndi hins vegar öðru máli. Kærunefnd húsamála benti á að aðilar málsins hefðu ekki gert sameiginlega úttekt á húsnæðinu við lok leigutíma. Leigjandinn hafi fullyrt að hún hafi þrifið íbúðina og lagt fram myndir því til staðfestingar. Leigusalinn hafi ekki tekið myndir en fullyrt að nágranni geti staðfest að íbúðin hafi verið óþrifin. Leigusalinn hafi ekki fært sönnur á að ástand húsnæðisins við lok leigutíma hafi verið þannig að það hafi verið óleiguhæft. Kröfu leigusalans um að leigjandinn greiddi einnig leigu fyrir nóvember 2023 var því hafnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?

Prinsippmaður lagði ÁTVR en eftir standa áleitnar spurningar – Hvað með samkeppnislög og neysluvísitöluna?
Fréttir
Í gær

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna

Furðulegt brot konu fyrir norðan – Dreifði mynd af sínum fyrrverandi alblóðugum til vina og vandamanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára

Bjarni veitir Hval hf veiðileyfi til fimm ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund

Daníel Örn fær 4 ára dóm fyrir manndrápstilraun – Stakk lækni í hálsinn við Lund