Fyrir Alþingi liggur frumvarp Pírata um breytingu á almennum hegningarlögum á þann veg að kynlíf með einstaklingi undir 18 ára aldri verði refsivert. Fyrsti flutningsmaður er Gísli Rafn Ólafsson.
Breytingunni er m.a. ætlað að vernda börn gegn valdamisræmi vegna aldursmunar í kynferðislegum samskiptum. Í greinargerð með frumvarpinu eru færð rök fyrir því að í lögum sé fyrir nægileg vörn gegn því að ungir einstaklingar séu lögsóttir fyrir kynlíf með einstaklingum á svipuðum aldri.
Umboðsmaður barna, Salvör Nordal, hefur hins vegar lagt fram neikvæða umsögn um frumvarpið, eins og DV greindi frá á mánudag. Vísar Salvör til þess að samkvæmt rannsóknum byrja íslensk börn yfirleitt að stunda kynlíf í kringum 15 ára aldurinn. Því sé rétt að kynferðislegur lágmarksaldur taki mið af því, út frá sjónarmiðum um sjálfsákvörðunarrétt barna. Umboðsmaður telji rétt að auka réttarvernd 15 til 17 ára en sú leið sem farin sé í frumvarpinu sé varhugaverð. Undirbúningurinn þurfi að vera betri sem og rannsóknir til að styðja ákvörðunina.
Baráttuhópurinn Öfgar hefur lagt inn umsögn þar sem frumvarpið er eindregið stutt. Hópurinn vekur athygli á málinu í Facebook-færslu þar sem segir meðal annars:
„Það er okkur hjartans mál að börn hljóti aukna réttarvernd. Einkum í ljósi þess að almenningur virðist telja hegningarlög vera einhvers konar siðferðisleiðarvísi um hvað má og megi ekki gera. Það er oftast svo, en því miður heldur það löglega og siðferðislega ekki alltaf hönd í hönd. Sérstaklega með lagaramma sem er að sumu leyti úreltur og á erfitt með að greina brot sem framin eru í friðhelgi einkalífsins. Hann var hannaður útfrá veruleika karlmanna án þess að konur og börn hafi setið við borðið. Reglulega er tekið til innan þessa lagaramma og má minna á að til ársins 2007 var nauðgun innan hjónabands lögleg. Var það siðferðislega rétt þar sem það var löglegt? Þú þarft ekki að vera með sterkari siðferðiskennd en Voga ídýfa til að skilja að svo var ekki.
Við sem samfélag hljótum að vilja sporna gegn því að fullorðnir einstaklingar nýti sér glufur sem þessar í nafni laganna. Við viljum minna á að réttur barna til kynfrelsis er varinn innan Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að „Rómeó og Júlíu“ ákvæðið verður áfram notað. Börn mega og eiga rétt á að stunda kynlíf með jafningjum sínum sem eru stödd á svipuðum stað hvað varðar þroska þegar ótvírætt samþykki er til staðar. Tilgangur þessarar lagabreytingar er ekki að breyta þeim rétti heldur aðeins að vernda börn gegn valdamisræminu sem verður þegar fullorðið fólk sækir í börn og nýtir sér yfirburði sína. Í hvaða heimi búum við þegar ásættanlegt er að fullorðnir einstaklingar sæki í börn og að annarlegar hvatir þeirra séu varðar með lögum? Við hljótum að vera sammála um það að fullorðið fólk eigi ekki að ríða börnum?“
Í umsögn sinni um frumvapið segir hópurinn að núgildandi lög um kynferðislegan lágmarksaldur stríði gegn gildum sem samfélagið hafi barist fyrir síðustu ár og feli í sér ósamræmi þegar kemur að öðrum lagaákvæðum er lúta að vernd barna undir 18 ára aldri:
„Íslenskt samfélag hampar sér fyrir að setja velferð barna í forgang og metur þátttöku þeirra innan samfélagsins eftir þroska og aldri. Þau eru ekki skattskyld fyrr en 16 ára og mega ekki taka bílpróf fyrr en 17 ára. Tóbak er bannað börnum undir 18 ára aldri eða þegar þau eru komin á sjálfræðisaldur og við gerum okkar besta að halda þeim frá áfengi með lögum um áfengisaldur (20 ára). Því er það einstaklega furðulegt, eftir allar þessar lagasetningar, alla þessa vernd sem sett er upp eftir þroska og aldri þá teljast 15 ára börn nógu þroskuð til að geta gefið upplýst samþykki að heilsu sinni, líkama og sál.“