Oddvitar endurnýjaðrar ríkisstjórnar, þeir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson velferðarráðherra, sátu í Kastljósi í kvöld og ræddu um ríkisstjórnarsamstarfið. Bjarni flutti í dag á Alþingi yfirlýsingu sem nýr forsætisráðherra. Þar lagði hann þunga áherslu á endurbætur í útlendingamálum og sagði að ástandið í málaflokknum væri ekki lengur sjálfbært. Bjarni hélt þessum áherslum hátt á lofti í Kastljósi í kvöld.
Spyrill þáttarins, Baldvin Þór Bergsson, sagði við Bjarna: „Þú sagðir í dag að ástandið sem við hörfum horft upp á undanfarin misseri sé ósjálfbært og óásættanlegt. Nú er þetta málaflokkur sem þið hafið haldið utan um og þessi ríkisstjórn hefur starfað í að verða sjö ár, ertu ekki bara að lýsa vantrausti yfir á hvernig þið sjálfir hafið haldið utan um þessi mál?“
Bjarni benti á að Sjálfstæðismenn hafi verið með ítrekaða tillögugerð fyrir þinginu en mismunandi sjónarmið hafi verið í þinginu um málaflokkinn. Ófyrirsjáanlegir atburðir spili einnig inn í þróun þessara mála, t.d. stríðið í Úkraínu, einnig hafi flóttamönnum frá Venesúela fjölgað gríðarlega og „við höfum séð meiri ásókn í að koma hingað og leita hælis en aðrir hafa séð í okkar nágrannalöndum. Og skyndilega, þetta gerist tiltölulega hratt, þá eru að raungerast áhyggjur sem við höfum viðrað í langan tíma. En á þessum tímapunkti finnst mér kannski skipta mestu máli að tillögurnar eru í þinginu. Við erum búin að sníða fyrstu viðbrögð við ástandinu eins og það er.“
Bjarni sagði að þegar hann talaði um ósjálfbært ástand í málaflokknum væri hann meðal annars að vísa til kostnaðar en einnig til álags á félagslega innviði, t.d. skóla.
„Ég byrjaði í fjármálaráðuneytinu þar sem ég horfi á þennan málaflokk í kringum hálfan milljarð en hann er kominn vel yfir 20, liggur einhvers staðar í kringum 25 milljarðana eins og sakir standa. Þetta er auðvitað ósjálfbært fjárhagslega, algjörlega og gjörsamlega, og svona félagslega og fyrir innviði okkar þá er stjórnkerfið að verða fyrir holskeflu og nær ekki að afgreiða umsóknir á eðlilegum tíma, sem er að valda okkur ýmsum áskorunum í innviðum, húsnæðismálum, skólamálum, heilbrigðismálum og ýmsu öðru. Þetta er ástand sem við getum ekki búið við.“
Aðspurðir sögðu þremenningarnir að samstaða ríkti milli flokkanna um útlendingamálin. Guðmundur Ingi lagði hins vegar áherslu á inngildingu og aðlögun og að hlúa betur að fólki sem hér fær alþjóðlega vernd. Sigurður Ingi og Bjarni sögðu hins vegar að of mikill kostnaður, tími og orka færi í mál fólks sem sækti um alþjóðlega vernd hér en fengi síðan synjun við umsóknum sínum.
Sigurður Ingi sagði um þetta orðrétt: „Við erum að verja allt of miklu af tíma okkar og því sem við sinnum við að taka á móti fólki, handa fólki sem síðan að lokum fær nei og fer úr landi. Sem þýðir að kerfin okkar eru smátt og smátt að komast að þolmörkum og sumstaðar komin yfir það. Við erum að segja það að það þurfi skýrari sýn, það er þess vegna sem við erum að fara í lagabreytingarnar, við erum að fara í verklagsbreytingar til þess að vinna með þann fjölda sem er nú þegar hér á Íslandi.“
Sigurður Ingi sagði líka að vinna þyrfti með þá stöðu hvað margir hafa flutt hingað til lands og ekki bæri að rugla því saman við málefni hælisleitenda. Sinna þyrfti vel því fólki sem fengi hér alþjóðlega vernd og líka þeim sem kæmu hingað til að vinna og hafa síðan ákveðið að setjast hér að. „Það sem við erum hins vegar að eyða í raun og veru öllum kröftum okkar og allt of miklum fjármunum, það er í hópinn sem kemur hingað inn vegna þess að kerfið okkar, eða eigum við að segja síurnar inn í Ísland, einhverra hluta vegna, eru mun opnari heldur en í öllum löndum í kringum okkur. Fyrir vikið erum við síðan að glíma við hóp sem við að lokum sendum úr landi.“
Ríkisstjórnin hefur lagt fram heildarsýn í útlendingamálum og vitnuðu oddvitarnir þrír til hennar og boða endurbætur á málaflokknum.